Fimmtungur auglýsti óstaðbundið starf

Frá Selfossi. Mynd/Pexels
Frá Selfossi. Mynd/Pexels

21% ríkisstofnana auglýsti óstaðbundin störf á tímabilinu mars 2020 til mars 2022 og 19% á tímabilinu apríl 2022 til desember 2023. Ráðinn var einstaklingur í starfið sem staðsettur er á starfsstöð utan veggja ráðuneytis/stofnunarinnar í 72% tilfella frá mars 2020 til mars 2022 og í 62% tilfella frá apríl 2022 til desember 2023 (í sumum tilfellum er ráðningu ekki lokið). Þetta sýna niðurstöður könnunar sem Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri framkvæmdi fyrir hönd framkvæmdahóp um innleiðingu stefnu stjórnvalda um óstaðbundin störf meðal forsvarsmanna ráðuneyta og ríkisstofnanna. Niðurstöður könnunarinnar í heild sinni er að finna í nýrri skýrslu Óstaðbundin störf – staða og framtíðarhorfur 2023.

Greining á stöðugildum ráðuneyta og ríkisstofnana á landinu öllu leiddi í ljós að í heild væri mögulegt að auglýsa um 12% starfa óstaðbundin, samanborið við 10% í greiningu frá 2020 (sem náði einungis til stofnana á höfuðborgarsvæðinu). Vísbendingar eru um vöxt í störfum sem geta talist óstaðbundin. Þær stofnanir sem skiluðu greiningu árið 2020 og 2023 áætla að auglýsa mætti 15% starfa óstaðbundin nú, samanborið við 8% áður.

Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytið er það ráðuneyti sem telur hæsta hlutfall starfa geta verið auglýst óstaðbundin eða 81%.

Forsvarsmenn 21% stofnana telja mjög eða frekar líklegt að þær muni auglýsa/ráða í óstaðbundið starf á næstu 12 mánuðum. En 60% stofnana telja mjög eða frekar ólíklegt að þær muni auglýsa/ráða í óstaðbundið starf á næstu 12 mánuðum.

29% svarenda telja mjög eða frekar líklegt að þeir muni auglýsa/ráða í óstaðbundið starf á næstu 24 mánuðum, í samanburði við 27% árið 2020, en þá tóku bara ríkisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu þátt. Þá telja 49% svarenda mjög eða frekar ólíklegt að þeir muni auglýsa/ráða í óstaðbundið starf á næstu 24 mánuðum, í samanburði við 63% árið 2020.

Meiri möguleiki að nýta sérþekkingu

Þegar spurt var hvaða kosti forsvarsmennirnir sjá við það að fjölga óstaðbundnum störfum nefndi fólk gjarnan kostinn við að geta með þessu móti fengið fleiri umsækjendur og ráðið til sín hæfasta einstaklinginn í starfið, óháð því hvar viðkomandi býr. Meiri möguleiki væri fyrir stofnanir að nýta sér starfskrafta fólks með mikla sérþekkingu. Byggðasjónarmiðið kom einnig skýrt fram, einn stjórnandi nefndi að einn kostur við að fjölga óstaðbundnum störfum hjá stofnuninni væri aukin tengsl við landsbyggðina.

Jafnframt nefndu aðrir stjórnendur að það væri gott að fjölga óstaðbundnum störfum, sérstaklega ef þeir sem sinna störfunum eru búsettir á landsbyggðinni. Þannig væri hægt að jafna búsetu, verja búsetufrelsi starfsmanna ríkisins og auka hreyfanleika ríkisstarfsmanna.

Þá var nefnt að óstaðbundið starf gæti verið umhverfisvænna og sparað tíma og ferðakostnað til vinnu og verið fjölskylduvænt og komið til móts við fjölbreyttar þarfir og breytingu á fjölskylduhögum.

Annmarkar óstaðbundinna starfa

Einnig bentu nokkrir stjórnendur stofnana á landsbyggð á að þetta væri tvíeggja sverð, þannig gæti orðið neikvætt ef óstaðbundin störf myndu leiða til þess að starf í landsbyggð færðist á höfuðborgarsvæðið.

Svarendur nefndu einnig áskoranir varðanditeymisvinnu, samstarferfiðara væri að þjálfa starfsfólk og viðhalda liðsheild. Einnig var nefnt sem annmarki það þegar störf krefjast líkamlegrar viðveru og nándar til dæmis fyrir nemendur í framhaldsskólum eða í umönnun. Þá nefndu einhverjir að þeirra störf, t.d. lögreglu- og dómsstörf væru einfaldlega þannig í eðli sínu að ekki væri hægt að sinna þeim óstaðbundnum.

Þá var nefnt að vinnustaðamenning geti breyst með innleiðingu óstaðbundinna starfa. Vísað var í reynslu á tímum Covid þegar sagt var að stjórnunarlegir annmarkar væru við fyrirkomulagið þar sem erfitt hefði verið að hafa starfsfólk í fjarvinnu í faraldrinum. Þá var talað um að erfitt væri að geta ekki átt örfundi eða hafa stuttar boðleiðir.

Líkt og kom fram að ofan óttast einhverjir að opinberstörf á landsbyggðinni muni rata til höfuðborgarsvæðisins með tilheyrandi byggðaröskun.

Margir nefndu aukinn kostnað sem annmarka, bæði undir vinnuhúsnæði fyrir starfsfólk og ferðakostnað og bentu á að engin aukafjárveiting fylgi vegna þess. Margt þurfi að skilgreina betur.

Aðrar ábendingar

Að endingu var gefinn kostur á að koma á framfæri öðrum ábendingum til stjórnvalda í vefkönnuninni varðandi óstaðbundin störf. Þar fullyrti einn stjórnandi að um mikið framfaraskref væri að ræða.

Þá var ákall um skilgreiningar á réttindum starfsmanna og skyldum stofnana hvað þetta fyrirkomulag varðar, bæta þurfi einnig fræðslu og hvernig megi ná árangri. Skilagreina þurfi verkefnin vel og breyta viðhorfi til óstaðbundinni starfa.

Margar tillögur voru lagðar fram er sneru að því að auka fjárhagslegan stuðning við óstaðbundin störf. Í svipuðu samhengi var lagt til að stofnanir styrktu óstaðbundna starfsmenn til að leigja sér húsnæði.

Þá lagði einn þeirra stjórnenda sem hafði efasemdir um óstaðbundin störf, , til að gefnar yrðu út skýrar leiðbeiningar um hvort það sama eigi að gilda um stofnanir utan höfuðborgarsvæðis og á höfuðborgarsvæði.

Hér má lesa skýrsluna í heild sinni.