Ný rannsókn RHA um náms- og starfsráðgjöf í grunnskólum á Íslandi

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gefið út skýrslu um náms- og starfsráðgjöf í grunnskólum á Íslandi sem unnin var af Mörtu Einarsdóttur, Evu Halapi og Önnu Soffíu Víkingsdóttur sérfræðingum hjá RHA. Markmið verkefnisins var að gera úttekt á fyrirkomulagi náms- og starfsráðgjafar í grunnskólum og gera tillögur til úrbóta.

Spurningakönnun var send á skólastjórnendur allra grunnskóla á landinu. Einnig voru fimm skólar heimsóttir, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Þar var rætt við skólastjórnendur, náms- og starfsráðgjafa, rýnihópa foreldra og rýnihópa nemenda.

Viðmælendur voru sammála um mikilvægi þess að grunnskólanemar hefðu aðgang að þjónustu náms- og starfsráðgjafa eins og kveðið er á um í lögum. Í ljós kom að í 71% skóla á landsvísu starfar náms- og starfsráðgjafi með löggilt starfsheiti. Þó er mikill munur á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, þar sem mun hærra hlutfall skóla á höfuðborgarsvæðinu (83% á móti 63,1%) hefur löggiltan náms- og starfsráðgjafa.

Í skólum sem ekki hafa löggilta náms- og starfsráðgjafa er það einkum eiginleg náms- og starfsráðgjöf sem situr á hakanum en aðrir starfsmenn sinna eftir bestu getu persónulegri ráðgjöf við nemendur svo sem vegna líðanar og samskiptaörðugleika.

Skýrsluna má nálgast hér á vef RHA.

Sjá nánar á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/06/18/Stada-nams-og-starfsradgjafar-i-grunnskolum/