Rannsókn á Norðurlandi á vegum faghóps 3 í rammaáætlun

RHA er um þessar mundir að vinna að rannsókn fyrir faghóp 3 í rammaáætlun þ.e. áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Faghópi 3 er áætlað að raða landsvæðum í nýtingu eða verndun eftir líklegum samfélagslegum áhrifum þeirra.

Markmið rannsóknarinnar sem nú fer fram er að kanna samfélagsleg áhrif nokkurra virkjana sem reistar hafa verið á Norðurlandi, eða áform hafa verið um að reisa í sveitarfélögum á svæðinu. Svæði rannsóknarinnar eru Suður-Þingeyjarsýsla og Austur-Húnavatnssýsla. Áhersla er á reynslu og viðhorf heimamanna, bæði almennings og fólks með sérþekkingu vegna starfa á svæðinu, m.a. í sveitarstjórnum, ákveðnum atvinnugreinum og að umhverfismálum. Markmiðið er að niðurstöðurnar nýtist í þróun aðferða við mat á samfélagsáhrifum í Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Megin tilgangur rannsóknarinnar er að: 

  1. Afla upplýsinga um samfélagsáhrif virkjana, allt frá hugmynd til reksturs, út frá langri reynslu íbúa í tilteknum sveitarfélögum á Norðurlandi.  

  1. Afla gagna um og meta stöðu samfélaga á Norðurlandi fyrir og eftir virkjunarframkvæmdir, og áhrif raforkuframleiðslu og annarrar atvinnuuppbyggingar í landshlutanum undanfarna áratugi á samfélagsþróun svæðisins.  

  1. Nýta niðurstöður rannsóknarinnar til að aðlaga alþjóðlegar leiðbeiningar um mat á samfélagsáhrifum framkvæmda að íslensku samhengi, og nýta þær við þróun aðferðafræði  við mat á samfélaglegum áhrifum virkjunarkosta í 4. áfanga rammaáætlunar. 

Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur hjá RHA er verkefnisstjóri í þessari rannsókn. Hann á sæti í faghópi 3 í 4. áfanga rammaáætlunar ásamt Jóni Ásgeiri Kalmanssyni hjá HÍ sem er formaður, Magnfríði Júlíusdóttur hjá HÍ og Sjöfn Vilhelmsdóttur hjá HÍ.