Rannsóknaþing Norðursins - Okkar ísháða veröld

Okkar ísháða veröld - Fyrsta alþjóðaráðstefnan sem fjallaði um Norðurslóðir og Himalayasvæðið

Dagana 3. - 6. september 2011 var haldið í samvinnu við Háskólann á Akureyri sjötta alþjóðlega Rannsóknaþing Norðursins - Northern Research Forum - NRF. Þingið var haldið að Hótel Örk í Hveragerði og bar yfirskriftina Okkar ísháða veröld - Our Ice Dependent World.

Rannsóknaþingið markaði tímamót að því leyti að þar komu saman í fyrsta sinn sérfræðingar og fulltrúar frá Norðurslóðum, Eyjaálfu og ríkjum á Himalayasvæðinu til að fjalla um bráðnun íss og jökla og áhrif hennar á heimsbyggðina alla. Þátttakendur voru um 150 talsins frá u.þ.b. 15 löndum m.a. frá  Norðurlöndunum, Kanada, Bandaríkjunum, Ástralíu, Rússlandi, Kína, Indlandi og Nepal. Um 40 framsögur voru á þinginu og voru framsögumenn fjölbreyttur hópur fræðimanna, stjórnmálamanna, embættismanna, fólks úr atvinnulífinu og ungra vísindamanna ásamt fulltrúum frumbyggja sem fjallaði út frá margvíslegum sjónarhornum, um tækifæri og ógnir sem skapast af bráðnun íss. Rannsóknaþingið þótti takast vel og sköpuðust góðar umræður eftir framsögurnar.  

Rannsóknaþing Norðursins er mikilvægt framlag til þverfaglegrar og alþjóðlegrar umræðu um málefni er lúta að loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra, vandamálum og hugsanlegum tækifærum, sem þær kunna að skapa. Jafnframt er Rannsóknaþingið vettvangur til að efla samstarf  og tengsl á milli svæða þar sem áhrifa loftslagsbreytinga gætir nú þegar á vistkerfi, loftslag, veður og samfélags- og menningarlega velferð.

Þær tvær megin spurningar sem lágu til grundvallar á þinginu voru:

  1. Hverjar eru efnahagslegar, menningarlegar og pólitískar afleiðingar af síauknum hraða bráðnunar jökla í heiminum?
  2. Hvaða efnahagslegu, menningarlegu og pólitísku möguleika og eða ögranir þurfum við að horfast í augu við í þessu sambandi?

Þessar spurningar ásamt öðrum voru ræddar í fjórum málstofum (panels) undir yfirskriftunum:

  • Implications of the Ice Melt: A Global Overview;
  • Humanity, Communities, Minds, Perceptions and Knowledge on Ice;
  • International Law, ‘Soft Laws’ and Governance on Ice; and
  • Can we Imagine a World without Ice? Economic, Social and Political Consequences.  

Auk þess voru tvær styttri málstofur sem báru yfirskriftirnar ´Knowledge on Ice´ og ´Polar Law. Sú síðari samanstóð af fyrirlestrum nýrra nemenda í Mastersnámi í Heimskautarétti við Háskólann á Akureyri.

Auk NRF og Háskólans á Akureyri stóðu fjölmargir aðilar að þinginu sjá nánar á nrf.is en þar má einnig nálgast allar nánari upplýsingar um NRF.