Menntunarþörf samkvæmt könnun meðal fyrirtækja og stofnana á starfssvæði Eyþings

Markmið verkefnisins var að gera greiningu á menntunarþörf og tækifærum eftir starfssviðum og greinum á Eyþingssvæðinu. Í verkefninu var áherslan lögð á að skoða þörf á menntun út frá áherslum atvinnulífsins og spyrja forsvarsmenn fyrirtækja, fjölmennra sem og fámennra, um skoðun þeirra á þessum málum og hverjar þeir teldu horfurnar vera hjá sínu fyrirtæki/stofnun í nánustu framtíð. Samkvæmt niðurstöðum spurningakönnunarinnar er töluverður skortur á mannafla á Eyþingssvæðinu. Tæpur helmingur fyrirtækja/stofnana sagði að sig vantaði starfsfólk eða gerði ráð fyrir að það myndi vanta á næstu 5 árum. Hæst var hlutfallið í Norður-Þingeyjarsýslu. Rúmlega helmingur svarenda fyrirtækja og stofnana sagði að vel hafi gengið að fá fólk til starfa með þá menntun eða hæfni sem þörf er á. 

Viðmælendur töldu mikinn skort vera á iðnmenntuðu fólki. Nokkuð margir sem starfa í þessum greinum eru að komast á efri ár og því er endurnýjunarþörfin mikil. Iðngreinar virðist vera að berjast við ímyndarvanda og niðurstöður benda til að auka þurfi vægi verknáms í grunnskóla.

Meirihluti fyrirtækja/stofnana buðu upp á sí- eða endurmenntun á vinnustaðnum á síðastliðnum 12 mánuðum. Rúmlega þriðjungur svarenda töldu að námsþörfum fyrirtækisins væri vel þjónað í nærumhverfinu. Ennfremur kom glöggt fram í viðtalsrannsókninni, mikilvægi þess að hafa öflugar menntastofnanir á Eyþingssvæðinu.

Lokaskýrsla verkefnisins er hér.