Ný skýrsla um konur í sjávarútvegi

Störf karla og kvenna í sjávarútvegi

Nýlega birtu samtökin Konur í Sjávarútvegi (KIS) skýrsluna ,,Staða kvenna í sjávarútvegi frá sjónarhorni fyrirtækja og stofnana.“  Skýrslan er skrifuð af RHA og var byggð á rannsókn sem RHA og Gallup unnu í samstarfi fyrir KIS. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja stöðu kvenna í sjávarútvegi með því að safna tölulegum upplýsingum um konur og kanna viðhorf til þeirra innan greinarinnar. Byrjað var á að skilgreina fyrirtæki í sjávarútvegi og síðan var vefkönnun send til stjórnenda 445 fyrirtækja/stofnana í nóvember og desember 2016. Svarhlutfall var 45,2%.

Þegar þátttakendur voru beðnir að áætla hlutfall kvenna á meðal æðstu stjórnenda, á meðal eigenda og á meðal stjórnarmanna fyrirtækja og stofnana í sjávarútvegi sögðu einungis 15% svarenda konur vera á meðal æðstu stjórnenda en 64% fyrirtækja höfðu karl sem æðsta stjórnanda. Hlutfallið er jafnara þegar kemur að millistjórnendum en hjá mun fleiri fyrirtækjum (57%) sinna konur skrifstofustörfum en karlar (22%).

Í þriðjungi fyrirtækja (34%) var engin kona á meðal eigenda og í einungis 14% fyrirtækja áttu konur 51% hlut eða meira. Líklegast var að konur væru meðal eigenda fyrirtækja í sjávarútvegi, hjá fjölskyldufyrirtækjum og hjá minni fyrirtækjum (miðað við ársveltu). Á sama hátt var algengara að konur sætu í stjórnum fjölskyldufyrirtækja en annarra fyrirtækja.

Nokkrar spurningar lutu að viðhorfum til kvenna í sjávarútvegi. Yfir 70% aðspurðra töldu að þörf væri á fleiri konum í sjávarútvegi og að þær ættu að hafa meiri áhrif. Fimmtungur svarenda eða 20% taldi að karlar byggju yfir meiri þekkingu en konur á sjávaratvegi en 42% töldu svo ekki vera. Einnig var spurt hvort karlar byggju yfir meiri hæfni en konur og því voru fleiri ósammála eða 53% og færri sammála eða 5%.

Hér hefur aðeins verið tæpt á helstu niðurstöðum en skýrsluna sjálfa má finna hér.