Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur hjá RHA, tók þátt í málþinginu. Mynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
Mánudaginn 24. október fór fram fjölmennt málþing BHM í tilefni af Kvennafrídegi á Grand hótel í Reykjavík, en einnig fylgdust tugir með í beinu streymi á vefsíðu BHM. Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur hjá RHA og starfsmaður jafnréttisráðs Háskólans á Akureyri, tók þátt í málþinginu en markmiðið með því var að fá fjölbreyttan hóp fólks að borðinu til að ræða kjör kvenna á vinnumarkaði á Íslandi.
Í fyrsta erindi málþingsins Misjafnt fé - ævitekjur gagnkynja hjóna greindi Þóra Kristín Þórsdóttir, sérfræðingur í greiningum hjá BHM, frá því að 139 milljón króna munur gæti verið á ævitekjum gagnkynja hjóna með jafn langa menntun sem hófu störf á sama tíma hjá ríkisstofnun. Í dæminu sem hún tók var konan með meistarapróf í dæmigerðu heilbrigðisfagi en maðurinn er með meistarapróf í fagi sem er ekki hefðbundið heilbrigðis- eða velferðarfag (lögfræðingur/hagfræðingur/verkfræðingur) og hófu þau því störf í misjöfnum launaflokkum ríkisins og var konan ólíkleg til að ná nokkurn tímann tekjum mannsins.
Þóra Kristín benti á að sögulega hefði verið bannað að bera saman tekjur milli stétta en hún vildi með þessari greiningu brjóta þá reglu til að benda á hve misjafnlega störf kvenna og karla eru metin til fjár. Einnig benti hún á að líklega væru laun konunar ofmetin sökum þess að konur eru líklegri til að taka sér leyfi frá störfum vegna fæðingarorlofs og minnka við sig starfshlutfall á einhverjum tímapunkti, en á sama tíma væru laun karlsins líklega vanmetin þar sem karlar væru vísir til að skipta oftar um starf og hækka því hraðar í launum.
Sæunn, Alma Dóra og Þóra Kristín í pallborði. Mynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
Sæunn tók þátt í pallborðsumræðum í kjölfar erindis Þóru Kristínar ásamt Ölmu Dóru Ríkarðsdóttur, viðskiptafræðingi, þáttastjórnanda hlaðvarpsins Konur í nýsköpun, sérfræðingi í jafnréttismálum og stofnanda smáforritsins HEIMA. Líflegar umræður áttu sér stað þar sem þær ræddu meðal annars launaleynd, hvort væri kominn tími til að auglýsa störf á Íslandi með upplýsingum um laun og almennt um kjör kvenna á vinnumarkaði hér á landi.
Fleiri erindi voru á málþinginu. Edda Björk Þórðardóttir, lektor við Læknadeild Háskóla Íslands og klínískur sálfræðingur á LSH hélt erindið: Kynferðisleg áreitni á vinnustöðum kvenna á Íslandi - niðurstöður úr Áfallasögu kvenna. Herdís Sólborg Haraldsdóttir, eigandi IRPA ráðgjöf, hélt síðan erindið: Vinnumarkaður sem leiðréttir sig ekki sjálfur - um inngildingu og heildræna nálgun.
Í kjölfarið tóku þátt í pallborðsumræðum:
Sigrún Sigurðardóttir, dósent við HA á Heilbrigðisvísindasviði, sem hefur rannsakað áfallamiðaða þjónustu og sálræn áföll og ofbeldi.
Claudia Ashanie Wilson, mannréttindalögfræðingur, annar höfundur skýrslunnar Jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði.
Sigríður Jónsdóttir, viðskiptafræðingur með diplóma í hagnýtri jafnréttisfræði og meðlimur í Tabú, hreyfingu fatlaðra kvenna.
Fundarstjóri var Kolbrún Halldórsdóttir. En upptaka af málþinginu er enn aðgengileg fyrir áhugasöm á síðu BHM.