,,Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum – Skoðun á völdum samfélagsþáttum”

RHA hefur unnið skýrsluna ,,Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum – Skoðun á völdum samfélagsþáttum” fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga.  Í skýrslunni er að finna grunnskoðun á vinnumarkaðinum á Vestfjörðum og hversu langt hann er frá Hvestu og Söndum. Einnig er fjallað um samgöngur og mögulegar samgöngubætur, nýtingu húsnæðis, nýtingu grunnskóla og fleira.  Jón Þorvaldur Heiðarsson er aðalhöfundur skýrslunnar en meðhöfundar eru Hjalti Jóhannesson og Kjartan Ólafsson.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:

 

Vestfirðir eru tveir aðskildir vinnumarkaðir, báðir litlir, annar (sunnanverðir Vestfirðir) þó sínu minni en hinn (Ísafjarðarsvæðið).  Ef miðað er við að vinnumarkaður sé það svæði sem er í 45 mínútna ferðatíma frá vinnustað búa  um 1.200 manns á vinnumarkaði Hvestu en 4.100 manns á vinnusvæði Sanda.  Ef tekið er með í reikninginn hversu lagt frá Hvestu og Söndum fólk á heima á þessum tveimur svæðum kemur í ljós að ,,vinnusóknaraðlagaður” vinnumarkaður er helmingi minni fyrir Hvestu en Sanda eða einungis um 150 ársverk í Hvestu en um 300 á Söndum.

 

Til þess að lokka starfsmann á Ísafirði til að vinna á Söndum þarf líklega að greiða honum um 60.000 kr. aukalega á mánuði heldur en ef hann væri í eins starfi á Ísafirði.  Ef vinnuveitandinn skaffar akstur og vaktir eru 12 tímar lækkar þessi upphæð niður í um 14.000 kr.

 

Mjög erfitt er að ná til vinnumarkaðarins á Ísafjarðarsvæðinu frá Hvestu þó lagt verði í miklar vegaframkvæmdir svo sem Dýrafjarðargöng.  Slíkt er ekki hægt nema með neðansjávargöngum.  Dýrafjarðargöng og vegabætur á Dynjandisheiði eru þrátt fyrir það nauðsynlegar framkvæmdir hvort sem olíuhreinsistöð yrði reist í Hvestu eða á Söndum.  Æskilegt er að göng undir Dufansdalsheiði verði gerð ef olíuhreinsistöð verður reist í Hvestu.  Ef olíuhreinsistöð rís á Söndum er nauðsynlegt er að breikka Önundarfjarðarlegg Vestfjarðarganganna og æskilegt að þvera Dýrafjörð utar ef hægt er.

 

Húsnæði er verulega vannýtt á Vestfjörðum, íbúum gæti fjölgað um 1.130 án þess að byggt yrði nýtt íbúðarhúsnæði.  Um 450 á sunnanverðum Vestfjörðum og um 680 á Ísafjarðarsvæði.

 

Menntun íbúa á Vestfjörðum er heldur minni en í landinu í heild.   Árið 2004 var um 14% íbúa 18- 70 ára á Vestfjörðum með háskólapróf en um 20% á landsvísu.

 

Mikil fólksfækkun er á Vestfjörðum, á Vestfjarðakjálkanum öllum er nú fækkun um 100-200 manns á ári.  Mikill straumur fólks er frá Vestfjörðum til höfuðborgarsvæðisins en helsti straumur fólks inn á Vestfirði er frá útlöndum.

 

Atvinnutekjur eru lægri á Vestfjarðakjálkanum en á Íslandi í heild.  Munurinn var 9% árið 2005 og fer líklega vaxandi.


Skólahúsnæði er tiltækt fyrir 430 nemendur í viðbót í grunnskólum á Ísafjarðarsvæðinu og á sunnanverðum Vestfjörðum samkvæmt grófri úttekt.