Evrópuverkefninu - Tea for two - lokið

Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur lokið vinnu við Evrópuverkefnið Tea for two. Verkefnið hafði það að markmiði að hanna matstæki til að mæla stöðu jafnréttismála í sveitarfélögum.


Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur lokið vinnu við Evrópuverkefnið Tea for two.


Verkefnisstjórnun var í höndum Jafnréttisstofu en ráðgjöf, vinna við rannsóknir og gagnavinnsla í höndum sérfræðinga RHA. Samstarfsaðilar og þátttakendur í stýrihóp verkefnisins voru frá ráðuneytum og skrifstofum sveitarstjórnarstigs fimm Evrópulanda; Noregi, Finnlandi, Grikklandi, Búlgaríu og Íslandi.Tea for two verkefnið hlaut rúmlega þrjátíu milljóna króna styrk frá jafnréttisáætlun Evrópusambandsins (Programme relating to the community framework Strategy on Gender Equality). Aðrir styrktaraðilar voru félagsmálaráðuneytið og Rannsóknasjóður Háskólans á Akureyri.


Verkefnið hafði það að markmiði að hanna matstæki til að mæla stöðu jafnréttismála í sveitarfélögum. Stýrihópur verkefnisins kom saman á fjórum fundum til þess að ákveða hvaða þættir best væru til þess fallnir að meta jafnrétti í sveitarfélögum. Afrakstur þeirrar vinnu er safn tuttugu og eins mælivísa sem löndin söfnuðu gögnum um. Dæmi um slíka mælivísa eru; hlutfall kynja í bæjarstjórn, hlutfall kynja í nefndum, hlutfall barna í leikskólum o.s.frv. Úrvinnsla miðaði að því að veita sveitarfélögum einkunn fyrir innbyrðis afstöðu á mælivísunum. Sjálfstætt markmið Tea for two fólst í því að gera niðurstöður kunnar á heimasíðu verkefnisins. Þannig geta sveitarfélög, með hjálp myndrænnar framsetningu niðurstaðna, metið árangur sinn í jafnréttismálum.  Frekari upplýsingar um rannsóknarhluta verkefnisins gefur Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur RHA.