Evra án ESB aðildar – er það mögulegt?

Jón Þorvaldur Heiðarsson, sérfræðingur á RHA, ritaði grein í Morgunblaðið sem var birt mánudaginn 6. mars.  Greinin heitir „Evra án ESB aðildar – er það mögulegt?“. 

 

Jón Þorvaldur Heiðarsson, sérfræðingur á RHA, ritaði grein í Morgunblaðið sem var birt mánudaginn 6. mars.  Greinin heitir „Evra án ESB aðildar – er það mögulegt?“. 

Í greininni er velt upp þeim möguleika að taka upp Evruna án þess að gerast meðlimir í Evrópusambandinu.  Greinina í heild sinni má lesa hér að neðan:

 

Evra án ESB aðildar - er það mögulegt?

 

Þegar þetta er skrifað er krónan óstöðugri en hún hefur verið í mörg misseri.  Þessir síðustu atburðir hljóta því að vekja upp þá spurningu með enn meiri þunga en áður hvort íslenskt hagkerfi sé ekki að missa af vissum stöðugleika með því að vera með eigin gjaldmiðil, þann minnsta í heimi sem er á floti, þ.e. verð hans ræðst á markaði.  Aðrir kostir eru þá að taka upp annan gjaldmiðil t.d. evruna.  En er það mögulegt?

Ísland er sjálfstætt land með eigin lög.  Sem sjálfstætt land höfum við valið að vera með eigin gjaldmiðil sem heitir íslensk króna.  Ekki fæst séð að neinn geti banna okkur að nota eitthvað annað sem gjaldmiðil.  Við gætum notað smjör sem gjaldmiðil ef við vildum, eða gull eða jafnvel einhvern stóran gjaldmiðil eins og t.d. evru.  Það er ekki fordæmalaust að sjálfstæð smáríki noti gjaldmiðla annarra landa.  Ekki er Mónakó með eigin gjaldmiðil né Lichtenstein.
Ef við gefum okkur að við Íslendingar getum tekið upp erlendan gjaldmiðil án þess að spyrja kóng né prest, hvað mun það kosta okkur?  Einhliða upptaka evrunnar þýddi að við þyrftum að safna saman öllum íslensku krónunum og læsa þær niður í skúffu og láta þá sem áttu krónurnar hafa evrur í staðinn.  Samkvæmt Seðlabanka Íslands eru um 13 milljarðar króna í seðlum og mynt í umferð á Íslandi.  Til að skipta öllu þessu í evrur þyrftum við því að útvega evruseðla og evrumynt sem samsvarar 13 milljöðrum króna.  Einhverjar aukabirgðir þyrfti seðalbankinn að hafa ef fólk af einhverjum ástæðum færi að taka peninga út af reikningum sínum í meira mæli en nú er.  Hvernig eigum við að útvega þessa seðla og mynt?  Í versta falli þyrfti að taka þetta að láni.  Þá er fjármagnskostnaður óumflýjanlegur.  Fáir fá betri vaxtakjör en íslenska ríkið og má því reikna með lágum vöxtum á láni teknu hjá venjulegum banka.  3% vextir af 16 milljörðum eru sem dæmi 480 millj. á ári.  Spurningin er þá hvort upptaka evrunnar sé hálfs milljarðs virði á ári hverju.
Hins vegar er ekki útilokað að aðrar ódýrari leiðir séu til staðar.  Ein gæti verið sú að semja um lán beint frá Evrópska seðlabankanum á strípuðum stýrivöxtum hans sem eru nú 2,25%.  2,25% af 16 milljörðum eru 400 milljónir á ári.  Önnur leið gæti verið að gera samning við Evrópska seðlabankann um jöfn skipti.  Evrópski seðlabankinn léti okkur í té evrur sem samsvara 16 milljörðum króna en við afhentum honum í staðinn 16 milljarða af íslenskri krónu.  Þessi samningur gæti verið uppsegjanlegur af beggja hálfu þannig að skiptin gengju til baka á fyrirframákveðnu gengi ef annar aðilinn teldi fyrirkomulegið sér óhagstætt.  Ef hægt væri að ná svona samningi myndi upptaka evrunnar ekki kosta okkur neitt.  Þetta fyrirkomulag yrði Evrópska seðlabakanum algjörlega að kostnaðarlausu, bankinn myndi einfaldlega prenta aðeins fleiri seðla.

Hér hefur verið varið nokkrum orðum í upptöku evrunnar á Íslandi frá sjónarhóli Íslands, en hvernig snýr málið frá sjónarhóli Evrópusambandsins?
Evrópusambandið vill að öll aðildarríki sambandssins taki upp evru til þess að evrópskur markaður sé sem skilvirkastur.  Evrópusambandið vill einnig gjarnan að evran keppi við dollarann um að vera helsti gjaldmiðill heimsins.  Hvernig liti ESB á það ef lítið ríki óskaði eftir sérstökum samningum við sambandið til að geta tekið upp evruna.  Í fyrsta lagi er þetta ríki í Evrópu.  Í öðru lagi er ríkið á evrópska efnahagssvæðinu sem segja má að komist næst því að vera fullgildur aðili.  Í þriðja lagi fullgildir ríkið öllum kröfum um stöðugleika í ríkisfjármálum svo sem fjárlagahalla, reyndar er ríkissjóður hér rekinn með afgangi en með töluverðum halla í flestum ríkjum Evrópusambandsins.  Í fjórða lagi er landsframleiðsla á mann mikil í ríkinu, reyndar einhver sú mesta í heimi, en hagkerfið samt það lítið vegna fámennis að engu skiptir þó ríkið sé með evru varðandi hagstjórn í sambandinu.  Það myndi með öðrum orðum ekki skapa neitt ójafnvægi á Evrusvæðinu þó í þessu landi kæmist til valda stjórn sem klúðraði málum sínum algjörlega, enda slíkt ólíklegt.  Í fimmta lagi gæti upptaka ríkisins haft áhrif á viðhorf annarra til evrunnar.  Þetta gæti verið mun mikilvægara atriði en sýnist við fyrstu sýn.  Að ríkt land eins og Ísland vilji taka upp evru mun auka hróður hennar.  Danir hafa ekki tekið upp evruna þó þeir séu meðlimir í sambandinu og helsta markmið seðlabanka Danmerkur sé að halda gengi dönsku krónunnar sem fastast við Evruna.  Í hvaða stöðu væru Danir ef Íslendingar, sem ekki eru meðlimir í sambandinu, tækju upp evru?  Það verður að segjast eins og er að staða Dana yrði þá nokkuð furðuleg ef ekki beinlínis kjánaleg.  Líklegt er að margir Danir færu þá að spyrja sjálfa sig þeirrar óþægilegu spurningar af hverju þeir væru að dröslast með eigin gjaldmiðil ef nágrannaríki sem ekki væru einu sinni í sambandinu teldu sig betur komin með evru.  Svipaðar spurningar gætu vaknað í Svíþjóð.
Með hliðsjón af framansögðu er dregin sú ályktun að Evrópusambandið myndi taka mjög jákvætt í að gera sérstaka samninga við Íslandi þannig að landið gæti tekið upp evru með sem minnstum kostnaði. 
Engar líkur eru þó á því að Íslandi fengi beina aðild að Seðlabanka Evrópu nema með fullri aðild að ESB.  Það er, Íslendingar kæmu ekki að stjórn peningamála á evrusvæðinu nema með inngöngu í ESB.

 

Jón Þorvaldur Heiðarsson
Hagfræðingur hjá Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri.