Málþing um eldri starfsmenn

Fimmtudaginn 25. september sl. stóð verkefnisstórn Vinnumálastofnunar um 50+ fyrir málþinginu "Eldri starfsmenn - akkur vinnustaða" á Akureyri. Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur RHA og Kjartan Ólafsson, lektor og fyrrverandi sérfræðingur hjá RHA héldu sameiginlegt erindi sem þeir kölluðu “Vinnan skapar manninn -  um einangraða vinnumarkaði og atvinnuháttabreytingar á landsbyggðinni".
Byggðu Hjalti og Kjartan erindi sitt á tveimur verkefnum sem RHA hefur unnið að á undanförnum árum.  Annars vegar Rannsókn á samfélagsáhrifum álvers og virkjanaframkvæmda á Austurlandi sem báðir hafa unnið að.  Kjartan greindi niðurstöður kannana úr verkefninu með tilliti til hópsins sem er eldri en fimmtugt.  Þá var fyrirlesturinn einnig byggður á verkefninu "How to Make a Living in Insular Areas - Six Nordic Cases" sem Hjalti tók þátt í. Í því samnorræna verkefni var Eyjafjörður tekinn sem hið íslenska dæmi um vinnumarkað sem hefur gengið gegnum mikið umrót og atvinnuháttabreytingar með afdrifaríkum afleiðingum fyrir einstaklinga og fyrirtæki.  Þetta umrót kom ekki síst niður á eldri starfsmönnum.