Meirihluti á Vestfjörðum áfram jákvæður gagnvart fiskeldi

Mynd/Wikimedia Commons
Mynd/Wikimedia Commons

Fyrir jól skilaði RHA niðurstöðum viðhorfskönnunar til Vestfjarðarstofu þar sem Vestfirðingar voru spurðir um fiskeldi og samgöngur. Til að fá mat á viðhorfum Vestfirðinga var slík könnun framkvæmd árið 2020 og svo aftur haustið 2022. Bára Elísabet Dagsdóttir og Rannveig Gústafsdóttur framkvæmdu könnunina að þessu sinni.

Rannsóknin var netkönnun en allir einstaklingar með skráð lögheimili á Vestfjörðum fengu bréf í pósti þar sem þeim bauðst að taka þátt í könnuninni. Bréf voru upphaflega send á 4953 íbúa og alls bárust 525 svör.

Á heildina litið eru svarendur nokkuð jákvæðir gagnvart fiskeldi, meirihluti (um 67%) var frekar eða mjög jákvæður gagnvart fiskeldi.

Meirihluti taldi fiskeldi bæta búsetuskilyrði, skapa tekjur og störf, hækka þjónustustig og auka fjölbreytni starfa. Meirihluti taldi fiskeldi einnig efla fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum, bæta þjónustu, auka virði fasteigna og hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun.

Skiptari skoðanir voru um hvort fiskeldi væri mengandi, hefði neikvæð sjónræn áhrif og hvort það væri umhverfisvæn matvælaframleiðsla (stór hluti hvorki né). Einnig voru skiptar skoðanir varðandi hvort áhrifin á umhverfið væru réttlætanleg (þó fleiri sem fannst það en ekki) og hvort fiskeldi reiði sig of mikið á farandverkafólk (40% segja hvorki né).

Í sumum tilfellum var munur á viðhorfum gagnvart fiskeldi milli hópanna sem voru skoðaðir:

  • Niðurstöður marktektarprófa (sem þó ber að fara varlega í að draga of sterkar ályktanir af) benda til þess að:
    • Það var munur eftir búsetu á öllum spurningum. Íbúar á Reykhólum og Ströndum skera sig sérstaklega úr - í sumum spurningum mátti líka sjá að íbúar á Ísafirði höfðu aðeins neikvæðari viðhorf
    • Þar sem var kynjamunur var hann á þann veg að konur voru aðeins neikvæðari en karlar gagnvart fiskeldi og áhrifum þess
    • Þar sem var tekjumunur lýsti hann sér yfirleitt þannig að þeir sem eru með lægri tekjur voru aðeins neikvæðari en þeir með hærri tekjur
    • Þar sem var munur eftir menntun var hann yfirleitt þannig að þeir með háskólamenntun og þá sérstaklega framhaldsmenntun á háskólastigi virtust aðeins neikvæðari en þeir með minni menntun
    • Þar sem var aldursmunur lýsti hann sér þannig að yngra fólk (þ.e. fólk í tveimur yngri aldurshópunum 18-45 ára) var aðeins neikvæðara en eldra, þeir í 61+ aldurshópnum jákvæðastir – það munaði þó oftast ekki miklu

Samanburður milli 2020 og 2022

  • Þar sem er munur milli svara 2020 og 2022 er hann á þá leið að fólk er aðeins neikvæðara gagnvart fiskeldi 2022 en 2020 en þó eru áfram mun fleiri jákvæðir en neikvæðir
    • Í könnuninni árið 2022 voru færri svarendur sammála því að það bæti búsetuskilyrði, skapi tekjur, bæti þjónustu, hafi jákvæð áhrif á ímynd byggðarlagsins, sé umhverfisvæn matvælaframleiðsla, auki atvinnumöguleika
    • Þeir eru meira sammála því að það sé mengandi, hafi neikvæð áhrif á aðra atvinnustarfsemi, hafi neikvæð sjónræn áhrif, skili ekki nægum efnahagslegum ábata til að hægt sé að réttlæta áhrif á umhverfið, hafi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu
  • Um 81% voru frekar eða mjög jákvæð gagnvart fiskeldi 2020 en um 67% voru það 2022

Bættar samgöngur taldar forsenda íbúafjölgunar

Nær allir töldu bættar samgöngur efla þjónustu og verslun á Vestfjörðum

  • Meirihluti taldi:
    • bættar samgöngur auka möguleika á að sækja heilbrigðisþjónustu innan Vestfjarða
    • bættar samgöngur vera forsendu íbúafjölgunar
    • bættar samgöngur leiða til þess að þau myndu frekar sækja verslun og þjónustu innan Vestfjarða
    • atvinnutækifæri þeirra fábreytt vegna stöðu samgangna

Meirihluti veigraði sér við að fara milli byggðarlaga vegna lélegrar vetrarþjónustu.

  • Skiptari skoðanir voru um:
    • hvort fólk treysti sér að sækja atvinnu út fyrir byggðarlagið miðað við núverandi samgöngur (fleiri þó ósammála)
    • hvort fólk veigri sér við að fara milli byggðarlaga vegna samgangna (fleiri þó sammála en ósammála)

Munur var eftir hópum, hér er líka mest áberandi munur eftir búsetu:

  • Þeim sem búa á Norðan- og Sunnanverðum Vestfjörðum finnst atvinnutækifæri sín aðeins fábreyttari, finnst frekar að bættar samgöngur auki möguleika á að sækja heilbrigðisþjónustu innan Vestfjarða
  • Þeir sem búa á Sunnanverðum Vestfjörðum veigra sér frekar við að fara milli byggðarlaga vegna lélegrar vetrarþjónustu
  • Þeir sem búa á Norðanverðum Vestfjörðum sækja frekar atvinnu út fyrir byggðarlagið og gætu frekar hugsað sér það (og Reykhólar og Strandir)
  • Þar sem var kynjamunur benti hann til þess að konur veigruðu sér frekar við að fara milli byggðarlaga vegna lélegrar vetrarþjónustu og karlar voru frekar að sækja atvinnu út fyrir byggðarlag en konur
  • Það fannst ekki munur eftir aldurshópum í flestum viðhorfsspurningunum. Þar sem var munur benti hann t.d. til þess að yngri svarendur veigruðu sér frekar við að fara milli byggðarlaga vegna lélegrar vetrarþjónustu, elsti hópurinn taldi svo frekar að verslun og þjónusta gæti lagst af vegna bættra samgangna
  • Þeir sem voru ekki með háskólapróf töldu atvinnutækifæri sín aðeins fábreyttari vegna stöðu samgagna og voru líka meira sammála því að bættar samgöngur væru forsenda íbúafjölgunar
  • Tekjuhæstu hóparnir voru frekar að sækja atvinnu út fyrir sitt byggðarlag og gætu frekar hugsað sér það

Mestu óþægindi um vetur á Dynjandisheiði

Kannað var viðhorf í samgöngum varðandi óþægindi eða kvíða við að ferðast vegi.

Þátttakendur töldu:

  • Mestu óþægindin um vetur á Dynjandisheiði, minnstu á Gemlufallsheiði
  • Almennt lítil óþægindi á sumrin, dreifðara um vetur
  • Ekki nein óþægindi/kvíða hvorki á sumrin né veturna í göngum (að mestu leyti)
    • Nema í Breiðdals- og Botnsheiðargöngum

Konur segja í flestum tilvikum frá meiri óþægindum/kvíða en karlar. Jafnframt virðast yngri svarendur almennt finna fyrir meiri óþægindum/kvíða en eldri á veturna.

 

Samanburður milli 2020 og 2022

  • Minni munur var milli ára fyrir samgönguspurningar en fiskeldisspurningarnar
  • Almennt eru fleiri 2022 sem segjast finna fyrir óþægindum/kvíða að vetrarlagi við að ferðast vegi

 

Hér má lesa skýrsluna í heild sinni, kynningu frá 2020 og  samanburðarskýrslu milli 2020 og 2022.