Mörg tækifæri til samvinnu í Slóvakíu

Ferðahópurinn frá RHA
Ferðahópurinn frá RHA

Á dögunum fóru starfsmenn Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri í ferð til Bratislava í Slóvakíu ásamt starfsmönnum Símenntunar HA. Tilgangur ferðarinnar var að kynnast rannsóknastofnunum með svipaðar áherslur, rannsóknaaðferðum þeirra og að mynda tengsl til framtíðarsamvinnu. Mikill áhugi var meðal kollega í Slóvakíu á samvinnu sérstaklega varðandi Evrópuverkefni.

Flogið var til Vínar og svo var leigubíll tekinn til Bratislava en þess ber að geta að þetta eru þær höfuðborgir Evrópu sem eru næstar hver annarri. Fyrsta heimsókn hópsins var til Faculty of Social and Economic Sciences hjá Comenius háskóla í Bratislava. Skipulögð var alþjóðlega vinnustofa til tengslamynda þar sem auk fulltrúa frá Comenius háskóla tóku þátt fulltrúar frá Central European Labour Studies Institute (CELSI) og Slovak Academy of Sciences. Þar kynntu fulltrúar frá hverri stofnun starfsemi sína fyrir hádegi og kynnti Arnar Þór Jóhannesson, forstöðumaður RHA stofnunina sem og Háskólann á Akureyri. Svo var boðið til hádegisverðar sem snæddur var úti á veitingastað nálægt háskólanum en hitastigið var aðeins hærra í Bratislava en Akureyri þessa septemberdaga. Eftir hádegi voru fjórir fyrirlestrar um rannsóknir. Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur hjá RHA, var með kynningu um samnorræna verkefnið Electric Aviation and the effects on the Nordic regions og Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur hjá RHA, kynnti verkefnið Sustainable Nordic Remote Labour Markets (SUNREM). Juraj Buzalka (Comenius háskóla) hélt erindi sem bar titilinn Postsocialist societies and cultures under the green deal og Marta Kahancová (Comenius háskóla, stofnandi CELSI), sem skipulagði heimsókn okkar, hélt erindið Institutional constraints to social dialogue in work integration of persons with disabilities: Slovakia and Norway compared.

Þáttakendum á vinnustofunni þótti merkilegt að á svona fámennu landi sem Íslandi væri hægt að stunda svæðisbundnar rannsóknir og byggðaþróunarrannsóknir og höfðu mikinn áhuga á samvinnu, sérstaklega á sviði jafnréttismála og fólksflutninga. Stefnt er að því að halda fund í haust til að skoða nánar hvaða samstarfsmöguleikar séu í boði.

Hjalti Jóhannesson og Sæunn Gísladóttir halda kynningu hjá Comenius háskóla

Í Bratislava var einnig farið í heimsókn til University of Economics in Bratislava þar kynnti Arnar Þór Jóhannesson aftur starfsemi RHA og HA og Stefán Guðnason, forstöðumaður Símenntunar HA hélt erindi um Símenntun. Góð þátttaka var á þeim fundi en bæði var sá háskóli kynntur og kynntu tveir aðilar rannsóknir sínar. Martin Kahanec (Central European University) hélt erindi um rannsókn sína sem sýndi fram á að innflytjendur eru hreyfanlegri til að bregðast við skorti á vinnuafli í ákveðnum greinum í atvinnulífinu en innfæddir. Roman Klimko (University of Economics in Bratislava) kynnti svo rannsóknir sínar um græna hagkerfið en athyglisvert er hve lítill áhugi var á því fagi þegar hann byrjaði fyrir nokkrum árum en nú leggur Evrópusambandið gríðarlega áherslu á þetta fag.

Arnar Þór Jóhannesson, forstöðumaður RHA, kynnir í Bratislava

Hópurinn heimsótti síðar Slovak Business Agency sem er stuðningsumhverfi fyrir nýsköpun en þar geta frumkvöðlar fengið aðstöðu til að vinna og stuðning við að þróa hugmyndir. Stofnunin er mjög framsækin en þar kynntust starfsmenn RHA og Símenntunar meðal annars tækninni sem frumkvöðlar hafa aðgang að innanhúss t.d. þrívíddaprentunartækni. Einnig fékk hópurinn að fylgjast með hvernig tæki getur smíðað vörur eftir tölvuskipunum og var hver og einn leystur út með minjagrip úr tré sem smíðaður var í vél fyrir framan hópinn.

Slovak Business Agency (SBA) tók vel á móti hópnum

Þrívíddarprentari skoðaður hjá SBA

Þar sem flogið var aftur heim frá Vín var haldið þangað á föstudagskvöldi með bát en það tekur nánast sama tíma að sigla Dóná milli Bratislava og Vín og að taka lestina á milli borganna tveggja. Siglt var af stað klukkan hálf sjö svo það var einmitt sólsetur í Vín þegar þangað var komið. Sjón er sögu ríkari. Í Vín var að sjálfsögðu borðað snitzel en einnig leigði hópurinn hjól til að skoða helstu kennileiti borgarinnar, enda miklu þægilegra að hjóla í 31 stigs hita og fá golu af og til en að arka áfram gangandi. Flogið var svo heim á sunnudagskvöldi. Öll voru sammála að um vel heppnaða starfsþróunarferð væri að ræða og mikil tækifæri væru til samvinnu í Slóvakíu!

Hópurinn í hjólaskoðun um Vínarborg