Ný rannsókn um viðhorf til jafnréttis og mismununar á íslenskum vinnumarkaði

Út er komin rannsóknarskýrsla sem RHA gerði fyrir Jafnréttisstofu um viðhorf stjórnenda fyrirtækja með 25 starfsmenn eða fleiri til jafnréttismála og mismununar á íslenskum vinnumarkaði. Rannsóknin var hluti af samstarfi Jafnréttisstofu við Mannréttindastofu Íslands og Fjölmenningarsetur og styrkt af Progress áætlun Evrópusambandsins. Skýrsluna má finna hér.

Markmiðið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um stöðu jafnréttismála í íslenskum fyrirtækjum og þekkingu á og viðhorf til tveggja tilskipana Evrópusambandsins sem til stendur að innleiða á Íslandi. Annarsvegar tilskipun sem tryggir jafnan rétt fólks á vinnumarkaði án tillits til kynþáttar eða þjóðernisuppruna og hinsvegar tilskipun sem bannar hverskonar mismunun á vinnumarkaði, t.d. vegna fötlunar, trúar/lífsskoðunar, aldurs eða kynhneigðar.

Þegar spurt var um eigin vinnustað kom í ljós að 84,7% svarenda (forstjórar/framkvæmdastjórar eða starfsmannastjórar/ mannauðsstjórar) töldu jafnrétti vera mjög mikið/mikið og 87,7% sögðu að mjög mikið/mikið væri leitast við að koma í veg fyrir mismunun. Hinsvegar töldu 86,2% að mismunun ætti sér stað á íslenskum vinnumarkaði. Flestir (63,8%) töldu mismunun eiga sér stað vegna kynferðis en fæstir (20,5%) vegna trúar/lífsskoðunar. Einungis 34,7% fyrirtækja unnu eftir jafnréttisáætlun þó lög kveði á um að jafnréttisáætlanir eigi að vera til staðar í fyrirtækjum af þessari stærð.

Yfir 80% svarenda þekktu lítið eða ekkert til áðurnefndra tilskipana ESB um jafnrétti og bann við mismunun á vinnumarkaði. Meirihluti (62,7%) taldi meiri fræðslu vanta um þessar tilskipanir en þó hafði meirihluti (59,6%) ekki áhuga á að þekkja betur til þessara tilskipana. Einnig taldi meirihluti (62,4%) ekki þörf á nýrri jafnréttislöggjöf sem sem tæki til fleiri þátta en kynferðis.

Nokkur munur var á svörum þátttakenda eftir kyni þeirra, þar sem konur höfðu t.d. meiri áhuga en karlar á að þekkja betur til ESB tilskipananna og töldu frekar þörf á nýrri jafnréttislöggjöf en karlar.  Einnig var nokkur munur á svörum eftir starfstitli þátttakenda og í sumum tilfellum eftir stærð og staðsetningu fyrirtækja.