Rannsókn á samfélagsáhrifum Héðinsfjarðarganga

Háskólinn á Akureyri hefur hlotið sex milljón króna styrk úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar vegna fyrsta áfanga verkefnisins Samgöngubætur og byggðaþróun: Félagsleg, efnahagsleg og menningarleg áhrif Héðinsfjarðarganga á mannlíf á norðanverðum Tröllaskaga. Þóroddur Bjarnason prófessor við Hug- og félagsvísindadeild mun stýra verkefninu.

Aðrir þátttakendur úr röðum kennara og sérfræðinga við Háskólann á Akureyri eru: Edward H. Huijbens, Grétar Þór Eyþórsson, Hjalti Jóhannesson, Jón Þorvaldur Heiðarsson, Kjartan Ólafsson, Sigríður Halldórsdóttir, Tryggvi Hallgrímsson, Vífill Karlsson og Þóra Kristín Þórsdóttir. Jafnframt mun hópur nemenda vinna við rannsóknina á næstu árum.
Lýsing verkefnis:
Þegar Héðinsfjarðargöngin verða tekin í notkun sumarið 2010 mun vegalengdin milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar styttast úr 62 kílómetrum um Lágheiði að sumarlagi eða 232 kílómetrum um Öxnadalsheiði að vetrarlagi í 15 kílómetra allan ársins hring. Í mati á samfélagsáhrifum Héðinsfjarðarganga frá árinu 2001 eru færð fyrir því rök að göngin muni styrkja Eyjafjarðarsvæðið sem vaxtarsvæði og sem mótvægi gagnvart höfuðborgarsvæðinu.

Með göngunum verði til samfellt atvinnusvæði sem nái frá Akureyri til Siglufjarðar með ríflega 20 þúsund íbúum. Það geti meðal annars leitt til fjölbreyttari starfa og minna atvinnuleysis, hærri launa, lægra vöruverðs og fjölbreyttari verslunar og þjónustu, auk þess sem margvísleg ný tækifæri skapist í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Ólafsfjörður og Siglufjörður hafa þegar verið sameinaðir í sveitarfélagið Fjallabyggð og mun sú sameining hafa umtalsverð áhrif þegar göngin verða opnuð.

Til lengri tíma litið er gert ráð fyrir því að göngin muni hafa margvísleg áhrif á samfélag, menningu og lífsstíl á norðanverðum Tröllaskaga. Markmið þessa verkefnis er að leggja heildstætt mat á stöðu mála og þær breytingar sem þar verða í kjölfar opnunar ganganna. Jafnframt mun verkefnið leggja grunn að mati á langtímaáhrifum ganganna og verða grundvöllur að mati á áhrifum gagnaframkvæmda á landinu almennt. Verkefnið skiptist í fimm meginhluta sem tengjast saman með heildstæðri aðferðafræði og greiningu opinberra gagna, spurningalistum, viðtölum og vettvangsathugunum.

Í fyrsta lagi verða samgöngumynstur á svæðinu skoðuð með margvíslegum hætti. Í öðru lagi verður búseta, búsetuáform og búsetuþróun kortlögð. Í þriðja lagi verður litið til efnahagsgerðar samfélagsins með áherslu á atvinnu, húsnæði, verslun og þjónustu. Í fjórða lagi verða metnar breytingar á opinberri þjónustu, sérstaklega í skólamálum, heilbrigðisþjónustu, löggæslu og félagsþjónustu. Í fimmta lagi verður félagslegur auður samfélaganna metinn með áherslu á félagslega þátttöku, samskipti og traust.

Verkefnið verður unnið í samvinnu við hagsmunaaðila á borð við sveitarfélagið Fjallabyggð, Vegagerðina og ýmis hagsmunasamtök, fyrirtæki og opinberar stofnanir og er ætlað að efla skilning á áhrifum samgöngubóta á byggðaþróun og lífsgæði í dreifðum byggðum. Verkefnið getur því haft umtalsvert hagnýtt gildi fyrir stefnumótun í samgöngumálum á Íslandi jafnframt því að verða mikilvægt framlag til rannsókna á þessu sviði á alþjóðavettvangi.