Rannsóknaþing Norðursins birtir ritgerðir frá fimmta þingi samtakanna

Rannsóknaþing Norðursins (NRF) hefur birt á heimasíðu sinni, www.nrf.is, ritgerðir frá fimmta rannsóknaþingi félagsins sem var haldið í Anchorage í Alaska, í september á síðastliðnu ári. Alls eru birtar 44 greinar sem tengdust málefnum fimmta Rannsóknaþings Norðursins og eru þær skrifaðar af þátttakendum rannsóknaþingsins og sérfræðingum á sviði norðurslóðamálefna.Rannsóknaþing Norðursins (NRF) hefur birt á heimasíðu sinni, www.nrf.is, ritgerðir frá fimmta rannsóknaþingi félagsins sem var haldið í Anchorage í Alaska, í september á síðastliðnu ári. Alls eru birtar 44 greinar sem tengdust málefnum fimmta Rannsóknaþings Norðursins og eru þær skrifaðar af þátttakendum rannsóknaþingsins og sérfræðingum á sviði norðurslóðamálefna.

Málefni síðasta rannsóknaþings voru „Framtíð Norðurslóðasamstarfs“, „Landfræðilegar breytingar með hlýnandi norðri“ „Aðgengi að norðrinu í hagkerfi heimsins“ og „Forystuhlutverk á öld óvissunnar“. Einnig voru settir á laggirnar sérfræðihópar (e. Theme Project Groups) til þess að halda málefnum þingsins á lofti. Hlutverk þeirra er að koma með aukna sérfræðiþekkingu inn í starfsemi NRF. Um er að ræða fimm sérfræðihópa sem fjalla um mismunandi málefni og snúa að lagalegum og pólitískum atriðum,  efnahagi norðurslóða,  orkumálum, norðurslóðasiglingum og loftslagsbreytingum og öryggi á norðurslóðum.

Þátttakendur á hverju rannsóknaþingi fyrir sig eru vísindamenn, háskólakennarar, stjórnmálamenn, stjórnendur fyrirtækja, embættismenn, sveitarstjórnarmenn og þeir sem stjórna auðlindum eða nýta þær. Ungt fólk og fólk sem býr yfir nýjum aðferðum og þekkingu er einnig hvatt til að sækja rannsóknaþingið en á síðustu ráðstefnu voru 20 ungir vísindamenn virkir þátttakendur á þinginu. Forsvarsmenn NRF vilja að tekið sé heildstætt á málefnum norðursins og að byggt verði á reynslu þess fólks sem býr á norðlægum slóðum. Því er leitast við að fá sem flesta þátttakendur af fjölbreyttum þjóðfélagsvettvangi til þess að ræða saman og miðla og skapa nýja þekkingu

Starfsemi NRF hófst á Íslandi í október 1999 með myndun alþjóðlegrar stjórnar  og stofnun skrifstofu, en Háskólinn á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sjá sameiginlega um skipulag og daglega starfsemi NRF í umboði stjórnar. Skrifstofa NRF er hýst af  RHA-Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri  fyrir Háskólann á Akureyri. Stjórnarmeðlimir eru ellefu talsins og koma frá flestum löndum norðurslóða.

Markmið NRF er að skapa umræður og auka samráð milli vísindamanna og hagsmunaaðila á norðurslóðum. Á rannsóknaþinginu skapast vettvangur fyrir stefnumótandi umræðu um hlutverk rannsókna sem tengjast sjálfbærri þróun og lífvænlegri búsetu, friði og öryggi, félagslegri stefnumótun, umhverfisstefnu og áhrifum hnattrænna breytinga. Þessi málefni eru einnig megin viðfangsefni Háskóla norðurslóða en NRF tengist starfsemi þeirrar stofnunar traustum böndum. Til að uppfylla markmið sín skipuleggur NRF rannsóknaþing á tveggja ára fresti í aðildarríkjum Norðurskautsráðsins. Fyrsta rannsóknaþingið var haldið við Háskólann á Akureyri árið 2000.

Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, framkvæmdastjóri NRF og Sigmar Arnarsson, starfsmaður skrifstofu NRF ritstýrðu útgáfu greinanna. Embla Eir Oddsóttir og Ingveldur Tryggvadóttir sáu um yfirlestur.

Hægt er að nálgast greinarnar á heimasíðu NRF, www.nrf.is.