REKENE - Samnorrænt verkefni um hlutverk þekkingar og menntunar í byggðaþróun

REKENE er samnorrænt rannsóknar- og þróunarverkefni sem byggir á þeirri sýn að áherslur í efnahagsþróun innan ESB og Evrópska efnahagssvæðisins skuli byggja öðru fremur á sviðum þar sem menntunar og þekkingar er krafist og að ný og betri störf skapist á þeim grundvelli. Rannsóknir hafa bent til þess að í vestrænum ríkjum þar sem tekjur eru þegar komnar á hátt stig er frekar efnahagslegra framfara einkum að vænta við frekari nýtingu þekkingar.

Íslenska dæmið í þessari rannsókn er Akureyrarsvæðið. AFE er íslenski aðilinn að verkefninu og mun Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri sjá um rannsóknarhlutann í samvinnu við AFE.
Í verkefninu verða tekin viðtöl við einstaklinga úr völdum fyrirtækjum á hverju svæði fyrir sig og þau greind. Á Akureyrarsvæðinu hafa AFE og RHA komið sér saman um að þjónustugreinar viðskiptalífsins og þekkingarfyrirtæki sé áhugaverðar atvinnugreinar til að skoða sem hið íslenska dæmi enda hafa þar verið mikil umsvif á undanförnum árum. Einnig er þar hlutverk þekkingar mikið og þessar greinar hafa mikið leitað að menntuðu fólki til starfa.

Skoðað verður á hvern hátt þekking flyst á milli fyrirtækja og á milli svæða, hvernig fyrirtæki nýta sér þekkingu. Skoðuð verður byggðastefna og önnur stefnumörkun sem máli skiptir á viðkomandi svæði. Skoðað verður stofnanaumhverfið á svæðinu og á hvern hátt það styður við atvinnulíf þess, ekki síst hvað varðar uppbyggingu þekkingar.

Verkefnið verður unnið á tímabilinu 2007-2010 og verður niðurstöðum miðlað til þeirra svæða sem þátt taka í því.

Hér má sjá fréttatilkynningu á ensku og stutta kynningu