RHA 30 ára – ágrip af sögu Rannsóknamiðstöðvarinnar

Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri fagnar um þessar mundir þrjátíu ára afmæli. Frá stofnun árið 1992 hefur RHA sinnt því hlutverki að efla rannsóknir við Háskólann á Akureyri, en til marks um það birti RHA 300 rannsóknaskýrslur milli áranna 1997 og 2021. En vert er að nefna að skýrslur sem RHA hefur unnið á tímabilinu eru talsvert fleiri, skýrslur um innri mál stofnana og fyrirtækja, sem og ýmsar áfangaskýrslur, eru ekki birtar.

Þegar fimm ár voru liðin frá stofnun Háskólans á Akureyri var Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri (RHA) hleypt af stokkunum en fyrsti stjórnarfundur RHA var haldinn þann 22. september 1992. RHA er sjálfstæð stofnun með sérstakan fjárhag og svo hefur verið frá upphafi. Forveri RHA var Vísindanefnd Háskólans á Akureyri sem var stofnuð í febrúar 1992.

Í upphafi laut stofnunin yfirstjórn háskólanefndar og starfaði samkvæmt lögum og reglugerð fyrir háskólann auk sérstakrar reglugerðar fyrir RHA. Hlutverk RHA frá upphafi hefur verið að:

  • Efla rannsóknir við HA
  • Gefa út og kynna niðurstöður rannsókna við HA
  • Styrkja tengsl HA við atvinnulífið
  • Hafa samstarf við innlenda og erlenda rannsóknaaðila
  • Veita upplýsingar og ráðgjöf
  • Standa fyrir námskeiðum, fyrirlestrum og ráðstefnum
  • Stunda þjónusturannsóknir

   

Starfsmenn RHA í október 2022 (á myndina vantar Önnu Soffíu Víkingsdóttur og Dönu Rán Jónsdóttur)

 

 

Frétt í Morgunblaðinu um stofnun Vísindanefndar árið 1992

Fram til ársins 2006 hafði stofnunin sérstaka stjórn og í henni áttu sæti fulltrúar atvinnulífsins og deilda háskólans. Megin breyting varð á stjórnun RHA að undangenginni stefnumótun árið 2006 þegar heiti stofnunarinnar var breytt í RHA – Rannsókna- og þróunarmiðstöð háskólans á Akureyri. Þá var stjórn stofnunarinnar jafnframt lögð niður og RHA varð hluti af háskólaskrifstofu og þannig skerpt á þjónustuhlutverki hennar við rannsóknir í háskólanum og umsýslu við rannsóknir akademískra starfsmanna enda var stjórnsýsla rannsókna færð frá skrifstofu rektors og yfir til RHA. Við þessar breytingar varð framkvæmdastjóri háskólans næsti yfirmaður forstöðumanns RHA. Þannig hefur staða stofnunarinnar við háskólann verið í sífelldri þróun.

 

Starfsmenn RHA árið 2008

Þrátt fyrir að markmiðin með rekstri RHA hafi ekki breyst opinberlega þá hafa orðið talsverðar breytingar á rannsóknaáherslum á þeim 30 árum sem stofnunin hefur starfað. Á upphafsárum RHA voru rannsóknir og ráðgjöf fyrir fyrirtæki áberandi, ekki hvað síst í tengslum við sjávarútveginn. Árið 1999 tók RHA að sér sérfræðiþjónustu við grunnskóla á Akureyri og í fleiri sveitarfélögum á Norðurlandi eystra. Í tengslum við þetta nýja verkefni, sem skapaði ákveðna kjölfestu í verkefnum og fjárhag RHA, efldust ýmsar rannsóknir og ráðgjöf tengd skólamálum almennt og í öðrum landshlutum. Í kringum aldamótin 2000 fóru svo að eflast rannsóknir tengdar byggða-, samgöngu- og sveitarstjórnarmálum og hefur sú áhersla að nokkru leyti haldist til dagsins í dag. Yfir tímabilið 1997-2011 voru fimm helstu svið rannsókna sveitarstjórnarmál, samgöngur, skólar og menntun, byggðaþróun og verkefni í þágu Háskólans á Akureyri. Aukin áhersla hefur verið á byggðaþróun og mat á samfélagsáhrifum framkvæmda frá árinu 2011 en milli áranna 2011 og 2021 voru helstu svið rannsókna byggðaþróun, sveitarstjórnarmál, samgöngur, skólar og menntun og mat á samfélagsáhrifum. Þróunin út í mat á samfélagsáhrifum framkvæmda hófst á árunum 2004 til 2010 þegar RHA vann stóra rannsókn sem fólst í að fylgjast með samfélags- og efnahagslegum áhrifum stórframkvæmda á Austurlandi (sem var stærsta einstaka rannsókn RHA frá upphafi).

 

Svo virðist sem breyttar áherslur gegnum tíðina fylgi áherslum forstöðumanna hverju sinni og þeim bakgrunni og tengslaneti sem þeir hafa. Framkvæmd ýmissa kannana hefur verið snar þáttur í starfsemi RHA a.m.k. frá því seint á 10. áratugnum en á undanförnum árum hafa kannanir orðið sérhæfðari og fyrst og fremst tengdar gagnaöflun fyrir tiltekin verkefni sem RHA hefur tekið að sér.

 

Kannanavinna í RHA árið 2005

Á móti kemur að talsvert hefur verið um gagnaöflun fyrir rannsóknir akademískra starfsmanna háskólans með framkvæmd kannana og er það m.a. hluti af þeirri áherslubreytingu sem varð árið 2006. Hin allra síðustu ár hefur þó vægi símakannana og netkannana aukist. Notkun mismunandi aðferða er til marks um breytingar á tækni og samfélagsbreytingar. Þannig fást niðurstöður fljótt ef tvær síðarnefndu aðferðirnar eru notaðar en þær hafa sína galla s.s. þá að yngra fólk er síður með skráða síma en þeir sem eldri eru og netkannanir henta aðeins fyrir ákveðna markhópa.

 

Starfsmannaheimsókn í Vaðlaheiðargöng árið 2017

Norðurland eystra er sá landshluti sem oftast er viðfangsefni rannsókna RHA þegar um tiltekin landshluta er að ræða eða í 33% tilfella sem er álíka oft og þegar landið allt eða enginn sérstakur landshluti er til skoðunar 39% (sjá mynd).

 

Á þessu má sjá að það hefur verið mikilvægt fyrir nærsvæðið að hafa til staðar rannsóknareiningu sem hægt er að leita til með verkefni. Á sama hátt hefur það verið gagnlegt fyrir RHA að nýta nærsvæðið sem greiningardæmi (case study) í ýmsum erlendum verkefnum.

RHA á í öflugu innlendu og erlendu samstarfi sem er breytilegt hverju sinni eftir rannsóknaráherslum en lesa má nánar um það hér. Meðal samstarfsaðila erlendis er samnorræna rannsóknastofnunin Nordregio, en starfsmenn RHA heimsóttu stofnunina árið 2019.

 

Heimsókn til Nordregio í júní 2019

Jafnframt hefur RHA í gegnum tíðina hýst minni starfseiningar við háskólann um skemmri eða lengri tíma og/eða veitt þeim ákveðna þjónustu og skapað umgjörð s.s. með símsvörun, bókhaldstengdri þjónustu og þess háttar. Með breytingunni árið 2006 varð þetta hlutfallslega stærri þáttur. Þannig hýsir RHA ýmis verkefni, bæði langtíma- og skammtímaverkefni. RHA hefur meðal annars hýst skrifstofu Rannsóknaþings Norðursins, Northern Research Forum – NRF, skv. þjónustusamningi við Háskólann á Akureyri. RHA sinnti einnig umsýslu vegna Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar (SHA) fyrir HA. Nýstofnuð miðstöð doktorsnáms við HA var stofnuð innan RHA því Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður og fleiri starfsmenn þeirrar starfseiningar sinntu verkefnum á því sviði innan RHA og undirbúningi miðstöðvar doktorsnámsins.

 

Frá NRF ráðstefnunni árið 2013, Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti sést hér á fremsta bekk

Enn fremur hefur RHA þjónustað nemendur Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hafa komið til HA til náms. RHA sér einnig um framkvæmd Vísindaskóla unga fólksins (fyrir 11-13 ára börn) fyrir hönd HA. Skólinn er fjármagnaður með hóflegu námsgjaldi en þó aðallega með framlögum frá ýmsum félögum og fyrirtækjum á Akureyri.

 

Vísindaskólinn árið 2015

Á undanförnum árum hafa starfsmenn RHA verið 9 í um 8 stöðugildum. Um þessar mundir sinnir RHA fjölbreyttum rannsóknum með innlendum og erlendum samstarfsaðilum, en nánar má lesa um yfirstandandi verkefni hér.