RHA og Miðstöð skólaþróunar við HA hljóta styrk vegna rannsóknar á samfélagslegu hlutverki háskóla

Nýverið kynnti Rannsóknastofa um háskóla að RHA og Miðstöð skólaþróunar HA hlytu styrk til rannsóknar á félagslegu hlutverki háskóla. Að baki rannsókninni stendur teymi sex fræðimanna frá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands. Rannsóknastofa um háskóla auglýsti í janúar síðastliðnum styrk til rannsóknar á eftirfarandi viðfangsefnum:

  1. Hvernig skilja íslenskir háskólakennarar og sérfræðingar starfsskyldur sínar og fagmennsku?
  2. Hvernig skilja íslenskir háskólakennarar samfélag sitt og samfélagslegar skyldur?

Rannsóknina má rekja til þess að í kjölfarið á hruni íslenska bankakerfisins var kallað eftir ítarlegri endurskoðun og mati á ýmsum gildum sem samfélagið hefur verið reist á. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var m.a. vikið að háskólasamfélaginu og gagnrýni á það kom fram. Samþykkti menntamálaráðherra árið 2010 tillögu stjórnar Rannsóknastofu um háskóla um að fé yrði varið til að vinna að rannsóknum á háskólunum í þessu samhengi.

Í umsögn verkefnisstjórnar Rannsóknarstofu um háskóla segir að verkefnisumsókn hafi verið ítarlega rökstudd og sterkur rannsóknarhópur standi að baki henni.

 

Rannsóknin er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands. Lögð var áhersla á samstarf háskóla og að bakgrunnur umsækjenda væri sem fjölbreyttastur. Þeir sem að þessari umsókn munu standa eru eftirfarandi akademískir starfsmenn og sérfræðingar háskólanna tveggja:

  • Dr. Amalía Björnsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
  • Auður Pálsdóttir, M.Ed., aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
  • Hjalti Jóhannesson, M.A. aðstoðarforstöðumaður, Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri
  • Dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Háskólann á Akureyri og Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
  • Dr. Sigurður Kristinsson, forseti Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri
  • Trausti Þorsteinsson, M.Ed. lektor við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Áformað er að rannsóknarstyrkurinn verði notaður til þess að leggja könnun meðal háskólakennara og starfsmanna skólanna og samhliða unnið að umsóknum um frekari styrki til að sinna áframhaldandi rannsóknum á þessu sviði. Því má í raun líta svo á að styrknum sé ætlað að hrinda af stað stærri rannsókn eða fleirum á félagslegu hlutverki háskóla.