RHA í breyttu rannsóknaumhverfi

Rannsóknaumhverfi háskóla hefur breyst mjög hratt á undanförnum árum.  Vægi fastra framlaga til rannsókna hefur minnkað og á móti kemur aukið fjármagn úr samkeppnissjóðum.  Opinber stefna stjórnvalda, sbr. yfirlýsingar Vísinda- og tækniráðs, er að draga úr beinum rannsóknaframlögum til háskóla en auka verulega við framlög til samkeppnissjóða Rannís.

Breytingar þessar gera kröfur til háskólaumhverfisins um aukna rannsóknavirkni sem og þátttöku í stærri rannsóknaverkefnum sem hljóta náð fyrir augum samkeppnissjóða.  Afleiðing þessa verður að sífellt erfiðara verður að fjármagna rannsóknir á einstaklingsgrunni þó það sé alltaf mismunandi eftir fræðasviðum. Til að geta mætt þessum breytingum þurfa háskólar að tryggja stoðkerfi sem styður og auðveldar rannsakendum að taka þátt í og jafnvel stýra stórum innlendum og alþjóðlegum rannsóknaverkefnum. 

RHA hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu ár bæði í útseldum verkefnum sem og þátttöku í erlendum rannsóknaverkefnum.  Markvisst er stefnt að frekari eflingu á starfsemi RHA en í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á rannsóknaumhverfi háskóla er þörf á að endurskoða tengsl RHA og HA með það að leiðarljósi hvernig stofnun eins og RHA geti sem best nýst við að efla og styrkja það rannsóknastarf sem unnið er í deildum Háskólans á Akureyri.

Á næstu mánuðum mun RHA fara í stefnumótunarvinnu innanhús sem og tengja þá vinnu við endurskoðun á ferlum sem tengjast stoðkerfi rannsókna innan Háskólans á Akureyri sem og annarra stofnanna hans.  Markmiðið er að gera þessa ferla gegnsæja og skilvirka þannig að þeir styðji og hvetji rannsakendur enn frekar en nú er til að taka þátt í samstarfverkefnum og sækja fé í samkeppnissjóði.