Styrkjunum var úthlutað úr Arctic Co- operation Programme 2009-2011, frá Norrænu ráðherranefndinni. Annar styrkurinn var veittur til Rannsóknaþings Norðursins (e. Northern Research Forum (NRF) en skrifstofa NRF er hýst af RHA.
Verkefnið sem ber heitið: „Our ice dependent world“, fékk styrk að upphæð 200,000 DKK. Verkefnið felst í því að skipuleggja og undirbúa 6. Rannsóknaþing NRF sem mun fara fram í Osló og Kirkenes dagana, 24. til 27. október 2010, undir sömu yfirskrift. Þangað verður boðið völdum sérfræðingum og ungum vísindamönnum til að flytja erindi og taka þátt í pallborðsumræðum. Verkefnisstjóri er Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður RHA.
Hitt verkefnið heitir „Megaproject planning in the circumpolar north“ og hlaut það styrk að upphæð 350,000 DKK. Tilgangur þess er að stuðla að betri tengslum milli hagsmunaaðila í aðildarríkjum Norðurskautsráðsins, sérstaklega hvað varðar stórframkvæmdir innan norðurskautssvæðisins. Verkefnisstjóri þess er Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur hjá RHA. Aðrir þátttakendur eru frá Finnlandi og Þýskalandi.
Þetta er annað árið í röð sem RHA hlýtur styrk fyrir verkefni undir Arctic Co- operation Programme 2009-2011.