Samfélagsáhrif á Austurlandi

Rannsókna- þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur sinnt rannsóknum á samfélagsáhrifum álvers- og virkjanaframkvæmda á Austurlandi í samstarfi við Þróunarfélag Austurlands í samræmi við þingsályktun þess efnis frá 2003. Komið hafa út fimm skýrslur í verkefninu og er lokaskýrslu að vænta í árslok 2009.

Að gefnu tilefni vilja undirrituð fyrir hönd verkefnisins koma því á framfæri að megin niðurstöður rannsóknarinnar fram til þessa benda til þess að áhrif framkvæmdanna og reksturs álversins séu almennt jákvæð á miðsvæði Austurlands. Hér er fyrst og fremst um að ræða Fjarðabyggð og Hérað. Áhrifin virðast þar standa undir væntingum að flestu leyti. Ánægja er áberandi með þætti s.s. fjölbreytni starfa, atvinnutekjur og þjónustu á ýmsum sviðum. Þá er ljóst að Fáskrúðsfjarðargöng hafa gert stærra svæði en ella kleift að njóta þessara áhrifa. Eitt helsta umkvörtunarefni íbúa á miðsvæðinu er að meiri samgöngubætur þurfa að koma til vegna landfræðilegra aðstæðna, þ.e. jarðgöng, til þess að áhrifin nái yfir stærra svæði. Þá kemur fram að uppbygging heilbrigðisþjónustu og fleiri þjónustuþátta þurfi að vera í samræmi við fjölgun íbúa á miðsvæði Austurlands.

Áhrif framkvæmdanna virðast ekki hafa staðið undir væntingum á norðan- og sunnanverðu Austurlandi. Þetta kemur rannsakendum ekki á óvart, enda gerðu þeir frá upphafi ráð fyrir minni og annars konar áhrifum á þeim svæðum sem eru utan tveggja tíma akstursvegalengdar frá framkvæmdum. Þau svæði virðast fylgja svipaðri þróun og aðrir landshlutar sem eru utan áhrifasvæðis Reykjavíkur og Akureyrar. Ekki er augljóst að framkvæmdirnar hafi neikvæð áhrif á þessum svæðum.

Í upphafi framkvæmda var gerð spá um þörf á íbúðarhúsnæði og í samræmi við hana virðist eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði hafi verið svarað að mestu þegar árið 2007. Byggt var mjög umfram þarfir líkt og annarsstaðar á landinu þar sem efnahagslegur uppgangur var á sama tíma.

Ljóst er að áhrif framkvæmdanna á samfélagið eru margslungin og orsakasamhengi ekki alltaf augljóst. Vísbendingarnar eru hinsvegar margar, og viðtöl við íbúa á miðsvæðinu benda til þess, að framkvæmdirnar hafi markað nýtt upphaf fyrir samfélagið, þeir hafi öðlast aukna trú á eigin framtíð á Austurlandi.

Fimm skýrslur rannsóknaverkefnisins fram til þessa eru aðgengilegar á vefslóðinni www.rha.is

Svanfríður Inga Jónasdóttir, formaður verkefnisstjórnar rannsóknar á samfélagsáhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi.
Hjalti Jóhannesson, verkefnisstjóri.

Þegar hafa komið komið út eftirfarandi fimm skýrslur á vegum rannsóknarverkefnisins.  Eru þær allar vistaðar hér á vef RHA og má smella á hlekkina hér að neðan til að hlaða þeim niður og fræðast nánar um verkefnið.