Sjálfbærir vinnumarkaðir á Norðurlöndunum - nýtt norrænt rannsóknarverkefni hjá RHA

Frá Húsavík, sem verður case study í rannsókninni. Mynd/Pexels
Frá Húsavík, sem verður case study í rannsókninni. Mynd/Pexels

RHA-Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri hefur ásamt þremur öðrum rannsóknarstofnunum á Norðurlöndunum fengið styrk frá Nordforsk til að rannsaka líklega framtíðarþróun vinnumarkaða á dreifbýlli svæðum Norðurlandanna. Byggðarannsóknastofnunin Nordregio í Stokkhólmi leiðir verkefnið en aðrir þátttakendur eru FAFO í Noregi og ÅSUB á Álandseyjum. Verkefnið mun standa í fjögur ár og er heildarupphæð styrks tæpar 9 milljónir NOK eða um 130 milljónir íslenskra króna. Verkefnið er unnið samkvæmt rannsóknaráætluninni Future Working Life sem Nordforsk setti á laggirnar og miðaði að því að auka þekkingu og leita lausna í tengslum við framtíðarþróun vinnumarkaða.

Vinnumarkaðir á dreifbýlli svæðum geta orðið fyrir miklum áhrifum vegna alþjóðlegrar þróunar á mörgum sviðum eða s.k. megatrends, sem felst meðal annars í lýðfræðilegum breytingum, tæknibreytingum, loftslagsbreytingum og alþjóðavæðingu. Rannsóknarverkefnið, sem kallast SUNREM (Sustainable remote Nordic labour markets), miðar að því að komast að því hvernig þessi alþjóðlega þróun snýr að hinum smærri vinnumörkuðum á Norðurlöndunum og hvaða áskorunum þeir standa frammi fyrir. Gerðar verða staðbundnar rannsóknir (case studies) á vinnumörkuðum í þátttökulöndunum og bæði verður byggt á eigindlegum rannsóknaraðferðum og greiningu opinberra tölfræðigagna. Þau svæði sem verða rannsökuð á Íslandi eru Dalvíkurbyggð og Norðurþing en miklar atvinnuhátta- og samfélagsbreytingar hafa orðið á þessum svæðum af mismunandi orsökum og það verður áhugavert að skoða hvernig framvinda þeirrar þróunar gæti orðið. Þess er vænst að niðurstöður verkefnisins geti meðal annars nýst við að móta stefnu um hvernig unnt sé að stuðla að sjálfbærari vinnumörkuðum á dreifbýlli svæðum en þeir hafa verið einhæfari og viðkvæmari fyrir ýmsum breytingum heldur en stærri og fjölbreyttari vinnumarkaðir sem eru nær efnahagslegri miðju í viðkomandi löndum.

Þátttakendur í undirbúningi rannsóknarinnar og gerð umsóknar fyrir hönd RHA og HA voru Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur hjá RHA og Grétar Þór Eyþórsson, prófessor hjá Viðskiptadeild HA og munu þeir og aðrir sérfræðingar RHA vinna að íslenska hluta verkefnisins.