Staða karla og kvenna á lögbýlum á Íslandi

Út er komin skýrslan ,,Staða karla og kvenna á lögbýlum á Íslandi”.  Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um starfs- og félagslegar aðstæður karla og kvenna búsettum á lögbýlum á Íslandi með það að leiðarljósi hvort tilefni sé til þess og þörf sé á að styrkja sérstaklega stöðu þeirra á ákveðnum svæðum á Íslandi.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna glöggt að mikill munur er á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks eftir kynferði, búsetu og búgrein.  Má þar t.d. nefna að konur eru mun verr settar félagslega en karlar.  Einnig kemur fram að töluverður munur er á heildartekjum fólks eftir fyrr greindum þáttum.  Hallar þar mest á konur, Vestfirði og sauðfjárbændur.  Fram kemur að staða mjólkurframleiðenda er mun betri en þeirra sem stunda annan búrekstur og eru þeir mun líklegri en aðrir til að geta lifað eingöngu af tekjum búrekstrarins.


Verkefnið var unnið fyrir jafnréttisnefnd Bændasamtaka Íslands og landbúnaðarráðuneytið en auk þeirra fjármagnaði Framleiðnisjóður landbúnaðarins verkefni.  Hjördís Sigursteinsdóttir, sérfræðingur RHA, sá um þessa rannsókn og ritaði lokaskýrslu.