Styrkir úr Sprotasjóði

RHA er umsýsluaðili sjóðsins sem er á vegum menntamálaráðuneytisins en ráðuneytið auglýsir nú eftir umsóknum um styrki úr Sprotasjóði leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Hlutverk sjóðsins er að styðja við þróun ognýjungar í skólastarfi. Í 4. gr. reglugerðar nr. 242/2009 um Sprotasjóð leik-, grunn- og framhaldsskóla segir:
„Leikskólastjórar, skólastjórar eða skólameistarar fyrir hönd skóla, kennarahópa eða einstakra kennara geta sent inn umsókn. Aðrir aðilar en skólar geta sótt um þróunarverkefni í samstarfi við skóla. Í þeim tilfellum skal staðfesting á þátttöku skóla fylgja umsókn.”

Áherslusvið sjóðsins verða að þessu sinni:

· Siðfræði og gagnrýnin hugsun

· Skapandi nám: Nýsköpun í námsumhverfinu

Við mat á umsóknum verða eftirfarandi viðmið höfð að leiðarljósi; skýr markmið verkefnis, verkefnisstjórn vel skilgreind, raunsæjar kostnaðar-, verk- og tímaáætlanir og framlag samstarfsaðila sé tryggt og vel skilgreint. Litið verður til þess hvort afrakstur verkefnisins sé líklegur til að hafa jákvæð áhrif á íslenskt skólastarf. Einnig verður skoðað hvernig verkefnin falla að hlutverki Sprotasjóðs.

Umsóknir sem falla utan áherslusviða fá sérstaka umfjöllun í ljósi áhrifa verkefna á íslenska menntun.

Fyrir skólaárið 2011 – 2012 verða til úthlutunar allt að 46 milljónir kr. og er umsóknarfrestur til 28.apríl 2011.

Vakin er sérstök athygli á að umsóknir um styrki skulu vera á rafrænu formi. Sækja þarf um aðgang að umsóknavef Stjórnarráðsins, http://umsokn.stjr.is/.

Nánari upplýsingar um Sprotasjóð veitir Sigrún Vésteinsdóttir hjá Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri í síma 4608904 eða í tölvupósti á sv@unak.is