Vísbendingar um meira þunglyndi og streitu meðal bænda

Mynd/Pexels
Mynd/Pexels

Niðurstöður nýrrar rannsóknar RHA Líðan og seigla íslenskra bænda benda til þess að bændur upplifi að jafnaði meiri einkenni þunglyndis og streitu en aðrir Íslendingar á vinnumarkaði. Auk þess eru hlutfallslíkur (odds) bænda á að flokkast með væg/miðlungs og alvarleg/mjög alvarleg einkenni samanborið við eðlileg einkenni þunglyndis og streitu hærri en fyrir samanburðarhópinn. Út frá rannsókninni er þó ekki hægt að draga ályktun um hvort munur sé á kvíðaeinkennum bænda og annarra Íslendinga á vinnumarkaði.

Bára Elísabet Dagsdóttir, sérfræðingur hjá RHA, leiddi rannsóknina, en aðrir samstarfsaðilar voru Bændasamtök Íslands, og Gísli Kort Kristófersson hjá Háskólanum á Akureyri.

Rannsóknin gefur einnig vísbendingar um að bændur sem hafi áform um flutninga eða atvinnuskipti upplifi meiri einkenni þunglyndis, kvíða og streitu en þeir bændur sem hafa engin slík áform. Vegna fárra svarenda með áform um flutninga eða atvinnuskipti er þó mikil tölfræðileg óvissa um hve mikill sá munur er.

Í rannsókninni var seigla íslenskra bænda einnig metin, sem ekki hefur verið gert áður. Engin stöðluð viðmið eru til um túlkun skora á seiglukvarðanum sem var notaður og í rannsókninni var samanburðargögnum ekki aflað. Því er erfitt að draga ályktun um hvort seigla bænda sé meiri eða minni en annarra út frá þessari rannsókn einni og sér. Hins vegar virðist meðalskor bænda á seiglukvarðanum heldur lágt í samanburði við meðalskor sem komið hafa fram í öðrum rannsóknum þar sem sami kvarði er notaður.

Vinnuaðstæður bænda voru einnig kannaðar m.t.t. vinnuálags. Stór hluti bænda telur sig mjög oft eða alltaf hafa of mikið að gera og hlutfallið sem taldi það var töluvert hærra hjá bændum en í samanburðarhópnum. Samanburður á svörum bænda og samanburðarhóps bendir einnig til þess að bændur telji vinnuálagið ójafnara og telji sig frekar þurfa að vinna á miklum hraða.

RHA hlaut styrk síðastliðið vor úr Byggðarannsóknasjóði til að rannsaka líðan og seiglu íslenskra bænda. Netkönnun var lögð fyrir íslenska bændur og niðurstöður hennar voru teknar saman til þess að fá yfirsýn yfir líðan og seiglu bænda, sem og fyrirætlanir þeirra um að skipta um starfsvettvang og flutninga. Þar að auki var athugað hvort munur væri á líðan bænda og líðan annarra Íslendinga á vinnumarkaði, að teknu tilliti til félagslýðfræðilegra þátta (s.s. kyns, aldurs, menntunar og fjárhagsstöðu). Loks var skoðaður hvort munur væri á líðan bænda eftir því hvort þeir hafi áform um að flytja eða skipta um atvinnugrein á næstu árum.

Hér má lesa skýrsluna í heild sinni.