Faghópur 3 í heimsókn í garðyrkjustöðinni að Hveravöllum í Reykjahverfi.
Í desember síðastliðnum kom út skýrsla um samfélagsleg áhrif virkjana í Suður-Þingeyjarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu. Var rannsóknin unnin í samstarfi RHA og fulltrúa í faghópi 3 í Rammaáætlun - áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur RHA og fulltrúi í faghópnum var verkefnisstjóri.
Rannsóknin, sem var viðtalsrannsókn, hafði það að meginmarkmiði að afla upplýsinga um samfélagsleg áhrif virkjana af mismunandi tagi þar sem þær hafa verið lengi í notkun og nýta þær upplýsingar sem fást í rannsókninni til þess að þróa aðferðafræði til þess að meta samfélagsáhrif virkjanakosta sem fram koma í 4. áfanga Rammaáætlunar sem nú stendur yfir.
Miklar deilur urðu á undirbúningstíma virkjana sem reistar voru fyrir nokkrum áratugum síðan. Þær hafa almennt hjaðnað og samráð um framkvæmdir hefur breyst mikið með tímanum. Búseta starfsmanna við virkjanir er dreifðari nú en áður var og starfsmönnum á nærsvæði hefur fækkað. Margvísleg áhrif af búsetu starfsmanna á nærsvæðið eru því minni en áður var. Væntingar vegna starfa við virkjanir og afleidd störf eru þó talsverðar. Áhrif á aðrar atvinnugreinar eru misjöfn eftir aðstæðum og tímaskeiðum, þannig urðu talsverð áhrif á landbúnað vegna virkjana og uppistöðulóna áður fyrr. Ferðaþjónusta virðist þrífast samhliða virkjunum, s.s. í Mývatnssveit. Áhrif á vegakerfi og raforkukerfi svæðanna, s.s. orkuöryggi, eru jafnan talsverð sem nýtist eftir atvikum nærsamfélaginu og þeim sem fjær búa s.s. í tengslum við ferðaþjónustu. Virkjanir hafa misjöfn áhrif eftir tegunum, þannig virðast skapast fleiri störf í kringum gufuaflsvirkjanir, bæði við rekstur þeirra og í afleiddum störfum. Fasteignaskattar, útsvör og önnur gjöld nýtast sveitarfélögum þar sem virkjunarhús eru staðsett og starfsmenn eru búsettir. Þetta getur verið mikilvægt í fjárhag sumra sveitarfélaga til að halda uppi viðunandi þjónustustigi. Afgjald er greitt til Þingeyjarsveitar sem er landeigandi í tilviki Þeistareykjavirkjunar. Væntingar voru meðal viðmælenda meðal sveitarstjórnarmanna um að afgjald rekstraraðila virkjana til sveitarfélaga þar sem þær eru staðsettar yrði almenn regla. Opinbert eignarhald á virkjunum naut meiri hylli meðal viðmælenda en eignarhald einkaaðila.
Skýrsluna má nálgast hér.