Arnar Þór nýr forstöðumaður RHA

Arnar Þór Jóhannesson hefur verið ráðinn forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA). Arnar er með meistarapróf í stjórnmálafræði frá Stokkhólmsháskóla og diplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Undanfarin sex ár hefur Arnar starfað sem sérfræðingur hjá RHA þar sem hann hefur unnið að fjölbreyttum rannsóknum ásamt kennslu í stjórnmálafræði. Síðastliðin tvö ár hefur Arnar jafnframt verið starfsmaður jafnréttisráðs HA í hlutastarfi.

Arnar tekur við af Baldvini Valdemarssyni sem tók við stöðunni í eitt ár af Guðrúnu Rósu Þórsteinsdóttur sem hafði þá verið forstöðumaður í 13 ár.

„Ég hlakka til að takast á við verkefnið með því góða starfsfólki sem hér er. Markmið RHA er og hefur verið að efla rannsóknir við Háskólann á Akureyri og styrkja tengsl skólans við atvinnulífið og samfélagið. Rannsóknaráherslur okkar hafa t.a.m. verið á sviði samfélags- og byggðaþróunar, opinberrar stjórnsýslu og atvinnumála svo fátt eitt sé nefnt en í raun höfum við komið að ótrúlega fjölbreyttum rannsóknum á undanförnum árum um land allt. Við ætlum að halda áfram að sinna okkar nær-svæði vel en við eigum í góðu samstarfi við fjölmörg fyrirtæki og stofnanir á Norðurlandi sem reiða sig á okkar sérfræðiþekkingu og fagmennsku. Þá bind ég vonir við áframhaldandi gott samstarf við akademískt starfsfólk háskólans, meðal annars á sviði ráðgjafar og framkvæmd rannsókna,“ segir Arnar.

RHA - Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri er sjálfstæð eining innan Háskólans á Akureyri og hefur verið starfandi frá árinu 1992. Hlutverk RHA hefur frá upphafi verið að:

  • Efla rannsóknir við HA
  • Gefa út og kynna niðurstöður rannsókna við HA
  • Styrkja tengsl HA við atvinnulífið
  • Hafa samstarf við innlenda og erlenda rannsóknaaðila
  • Veita upplýsingar og ráðgjöf
  • Standa fyrir málstofum, fyrirlestrum og ráðstefnum
  • Stunda þjónusturannsóknir

Arnar hóf störf 1. ágúst.