Bæjarbúum hugnast vel breytt fyrirkomulag í bæjarstjórn Akureyrarbæjar

Viðhorf til nýs fyrirkomulags í bæjarstjórn Akureyrar skv. könnun RHA í nóvember 2020
Viðhorf til nýs fyrirkomulags í bæjarstjórn Akureyrar skv. könnun RHA í nóvember 2020

Nú á dögunum sendi RHA – Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri út spurningakönnun til íbúa á Akureyri til að kanna viðhorf til ýmissa málefna. Ein af þeim spurningum sem lagðar voru fyrir fjallaði um breytingar í bæjarstjórn á Akureyri. Spurt var: Nýverið var kynnt nýtt fyrirkomulag í bæjarstjórn Akureyrar. Eftir breytinguna er enginn meiri- og minnihluti til staðar. Hvernig hugnast þér þessi breyting?

Alls svöruðu 534 spurningunni og af þeim höfðu 13% ekki myndað sér skoðun. Af þeim sem höfðu myndað sér skoðun leist 30% mjög vel á breytinguna, 28% frekar vel og 27% hvorki vel né illa. 16% aðspurðra leist frekar eða mjög illa á. Sjá nánar í mynd með fréttinni.

Þegar niðurstöðurnar voru greindar eftir því hvað fólk kaus í síðustu bæjarstjórnarkosningum má sjá að kjósendum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hugnast þessi breyting best en 65% kjósenda Samfylkingarinnar og 64% kjósenda Vinstri grænna voru jákvæðir gagnvart breytingunni. Kjósendur Framsóknarflokks komu þar skammt á eftir en 61% þeirra leist mjög eða frekar vel á breytinguna. Af þeim sem kusu Miðflokkinn síðast hugnaðist 57% breytingin vel, 50% kjósenda L-listans og 49% kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Breytingin nýtur minnst stuðnings meðal þeirra sem kusu Pírata síðast (38%) en þó eru samt fleiri sem hugnast breytingin vel en illa. Sjá nánar á þessari mynd skiptingu á viðhorfum eftir því hvað fólk kaus í bæjarstjórnarkosningum 2018.