Fjölþjóðlegur hópur fræðimanna kemur saman á Akureyri

Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri (RHA) mun standa fyrir fjölþjóðlegri ráðstefnu um byggða- og svæðaþróunarmál á Akureyri dagana 22.-25. september næstkomandi. Ráðstefnan fer fram á Hótel KEA og í Ketilhúsinu í Grófargili. Á ráðstefnunni munu yfir 30 þátttakendur, frá sjö þjóðlöndum, flytja erindi eða kynningar á öðru formi.

Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri (RHA) mun standa fyrir fjölþjóðlegri ráðstefnu um byggða- og svæðaþróunarmál á Akureyri dagana 22.-25. september næstkomandi. Ráðstefnan fer fram á Hótel KEA og í Ketilhúsinu í Grófargili. Á ráðstefnunni munu yfir 30 þátttakendur, frá sjö þjóðlöndum, flytja erindi eða kynningar á öðru formi.
Ráðstefna þessi er haldin í samvinnu við félagsskap er nefnist the Nordic-Scottish university network for rural and regional development, en Háskólinn á Akureyri á aðild að þeim félagsskap. Meginviðfangsefni ráðstefnunnar eru annars vegar félagslegar breytingar og þróun á landsbyggðarsvæðum og hins vegar hlutverk og möguleikar ferðaþjónustu á norðlægum landsbyggðarsvæðum. Innan þessara umfangsmiklu málaflokka verður víða drepið niður. 
Gera má ráð fyrir að meirihluti ráðstefnugesta verði erlendir gestir og mun því dagskrárliðir fara fram á ensku. Þátttakendur starfa allir að byggðamálum í víðu samhengi. Flestir eru á einn eða annan hátt viðriðnir háskóla- eða rannsóknastofnanir, en sumir þátttakanda starfa hjá ýmis konar stoðþjónustu- og ráðgjafastofnunum sem hafa með viðfangsefni ráðstefnunnar að gera.
Allar frekari upplýsingar um ráðstefnuna og dagskrá hennar má nálgast á sérstakri vefsíðu sem sett hefur verið upp af þessu tilefni. Vefslóðin er http://vefir.unak.is/nsun2005.
Ráðstefnan verður að hluta til haldin samhliða samnorrænni ráðstefnu á vegum Ferðamálaseturs Íslands um rannsóknir á ferðamálum og rekstri ferðaþjónustufyrirtækja (sjá nánar á http://www.aktravel.is). Þátttakendur munu hafa aðgang að viðburðum og dagskrá beggja ráðstefna. Gert er ráð fyrir að samanlagður fjöldi ráðstefnugesta á báðum ráðstefnum verði um 120 manns.