Gagnahlutdrægni mun skipta meira máli í framtíðinni

Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur hjá RHA. Mynd: Gunnhildur Lind.
Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur hjá RHA. Mynd: Gunnhildur Lind.

„Gagnahlutdrægni mun skipta meira máli í framtíðinni með tilkomu gervigreindar.“ Þetta kom fram í máli Sæunnar Gísladóttur, sérfræðings hjá RHA, á UAK ráðstefnunni sem fór fram í Norðurljósasal Hörpu þann 22. apríl síðastliðinn.

Ráðstefna Ungra athafnakvenna (UAK) var haldin í sjötta sinn og bar yfirskriftina Jafnrétti á okkar lífsleið.

Meginmarkmið ráðstefnunnar var að vekja athygli á alvarlegri afturför í jafnréttismálum samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Loftslagsbreytingar, COVID-19 og stríð í Úkraínu eiga það sameiginlegt ásamt öðrum þáttum að hafa verið áhrifavaldar þess efnis. Samkvæmt skýrslunni verður kynjajafnrétti verður ekki náð að fullu árið 2030 líkt og áform höfðu verið um heldur í fyrsta lagi eftir þrjú hundruð ár.

Sæunn, sem einnig er starfsmaður jafnréttisráðs HA, hélt erindið Af hverju skiptir gagnahlutdrægni máli?

Gagnahlutdrægni er útgangspunkturinn í bók Caroline Criado Perez Ósýnilegar konur, sem Sæunn þýddi, en undirtitill hennar er einmitt: Afhjúpun gagnahlutdrægni í heimi hönnuðum fyrir karla. Bókin fjallar um gagnahlutdrægni er varðar kynjuð gögn og þá sérstaklega um svokallaða kynjaða gagnabilið

Sæunn kom að því í erindi sínu að við reiðum okkur á gögn og tölur þegar kemur að því að ráðstafa fjármunum og taka afdrifaríkar ákvarðanir í efnahagslegri uppbyggingu, heilbrigðisþjónustu og menntakerfinu svo eitthvað sé nefnt. Vandamálið sé hins vegar að stór hluti gagnasöfnunar byggi á þeirri forsendu að karlkynið sé sjálfgefið en kvenkynið frávik.

Heimurinn reiðir sig í auknum mæli á gögn og gervigreind er hlutdræg. Það sem veldur mestum áhyggjum er að við vitum í rauninni ekki hversu slæmt vandamálið er. Flestum reikniritum er haldið leyndum. Mikil þróun hefur orðið í gervigreind á síðustu árum og sem dæmi er Open AI sem gerði ChatGpt 100% lokað og enginn veit hvað er að baki þess, þróunin er í þessa átt í gervigreindarheiminum.

Gervigreind er nú þegar farin að snerta okkar daglega líf verulega, gervigreind sem aðstoðar lækna við greiningar, les í gegnum ferilskrár og sem meira að segja tekur starfsviðtöl við umsækjendur er nú þegar algeng. Gervigreind sem hefur verið byggð upp á gagnasöfnum sem eru full af gagnabilum og ekki er hægt að rýna í hvernig þessi bil hafa verið tekin til skoðunar. Miðað við þau gögn sem fyrir liggja virðast gagnabilin almennt ekki vera tekin til skoðunar.

Í erindi sínu kom Sæunn einnig að mikilvægi gagnasöfnunar í heimsfaröldrum og gagnrýndi hve mikil óvissa ríkti varðandi líkama kvenna í Covid. Óvissa var með áhrif smits á fóstur, óvissa var með áhrif bólusetningar á meðgöngu, og óvissa var með áhrif bólusetningar á tíðahringinn. Hún velti því upp hvort þetta hefði þurft að vera svona ef nægum kyngreindum gögnum hefði verið safnað saman í fyrri faröldrum svo sem þegar SARS braust út í Kína milli áranna 2002 og 2004. Í lok erindis ítrekaði hún mikilvægi þess að vera öll meðvituð um gagnahlutdrægni, vinna gagngert gegn henni og að það væri von í gervigreindarheiminum þar sem mörg væru að fást við að draga úr hlutdrægni.

Líflegar panel umræður á UAK ráðstefnunni. Mynd/Gunnhildur Lind.

Að erindinu loknu tók Sæunn þátt í panelumræðum undir yfirskriftinni: Við höfum ekki 300 ár, ásamt þeim Guðrúnu Ólafsdóttur, sviðsstjóra upplýsingatækniráðgjafar og meðeiganda hjá Deloitte, og Margréti Bjarnadóttur, dósent í aðgerðagreiningu og tölfræði, og stofnanda PayAnalytics, en þær héldu báðar erindi á ráðstefnunni.

Í pallborðsumræðunum var velt upp hvernig hægt væri að nýta tækniþróun og gagnavinnslu til framþróunar í jafnréttismálum, og hvaða áhrif stafræn umbreyting/fjórða iðnbyltingin hafi á réttindi og stöðu kvenna. Ráðstefnugestum var veitt innsýn í hvers konar aðgerðir samfélög þurfa að leggja áherslu á til að vinna bug á þeirri alvarlegu afturför sem hefur átt sér stað og horfa björtum augum fram á veginn.

Mörg fleiri spennandi erindi voru á ráðstefnunni, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti opnunarávarp; Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi flutti erindi um bakslagið í jafnréttismálum; Ragna Árnadóttur, skrifstofustjóri Alþingis, hélt erindi um starfsferil sinn og ljónin í veginum undir yfirskriftinni Fyrst, síðust, skiptir það máli?; Þorsteinn V. Einarsson fór á trúnó með Haraldi Þorleifssyni; og Helga Hlín Hákonardóttir, eigandi og lögmaður hjá Strategíu, sagði frá innsæinu sínu og því hvaða leiðir hún hefur farið í lífinu.

Hér má lesa nánar um ráðstefnuna.