Vel hefur miðað í rannsóknarverkefninu, Enhancing labour opportunities for Ukrainian women in rural Nordic communities, gagnaöflun er lokið og skýrsluskrif fara nú fram af fullum krafti en verkefninu lýkur formlega í ágústlok 2026.
Um er að ræða tveggja ára samnorrænt verkefni sem hófst haustið 2024 og er styrkt af NIKK jafnréttissjóðnum. Rannsóknin, sem fékk styrk upp á 9 milljónir króna, snýr að því að rannsaka hvernig konum sem flúðu Úkraínu eftir innrás Rússa til Norðurlandanna hefur vegnað á norrænum vinnumarkaði. RHA leiðir verkefnið og vinna Sæunn Gísladóttir og Marta Einarsdóttir, sérfræðingar hjá stofnuninni, að því. Samstarfsaðilar eru rannsóknamiðstöðin Østlandsforskning við Høgskolen i Innlandet (Noregur) og Dalarna háskóli (Svíþjóð).
Verkefninu var ýtt úr vör með fundi í Lillehammer í Noregi haustið 2024. Fyrir íslenska hluta rannsóknarinnar voru viðtöl tekin haustið 2024 og vorið 2025 á Akureyri við úkraínskar konur og lykilaðila sem vinna með flóttamönnum til að kanna stuðning og hindranir við vinnumarkaðsþáttöku. Í apríl tók svo RHA á móti samstarfsfólki okkar í verkefninu sem komu frá Svíþjóð og Noregi og var fundað á Siglufirði um næstu skref í verkefninu. Í vor munu samstarfsaðilar skila inn niðurstöðum úr rannsóknum í sínu landi og svo hefst samanburður milli landa sem tekinn verður saman í lokaskýrslu verkefnisins.
Samstarf stofnana hefur gengið afar vel og ljóst er að miklir möguleikar eru til frekara samstarfs milli þessara norrænu stofnana en hinar stofnanirnar hafa meðal annars rannsakað byggðaþróun og jafnréttismál svo eitthvað sé nefnt.
Lokaafurð verkefnisins, Working paper, verður birt hér á síðunni á næstu mánuðum.

Hópurinn heimsótti Norðurlandið. Frá vinstri: Zuzana Macuchova, Lisa Knatterud Wold, Deniz Akin og Marta Einarsdóttir.