Greining jarðgangakosta á Mið-Austurlandi

Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði.

Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri vann fyrir Vegagerðina félags-hagfræðilega greiningu á jarðgangakostum á Austurlandi; Fjarðarheiðargöngum milli Seyðisfjarðar og Héraðs, göngum milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar um Mjóafjörð, Mjóafjarðargöngum (vinnuheiti í skýrslu RHA) og báðum þessum jarðgangakostum saman sem einni framkvæmd.

RHA hefur þróað og unnið mat samkvæmt aðferðafræði sem hægt er að nýta í tengslum við ákvarðanatöku um samgöngubætur út frá samfélags- og efnahagslegum þáttum. Þetta byggist á að meta hvern eftirfarandi megin þátta og undirþætti þeirra:

  • Arðsemi
  • Umferðaröryggi
  • Tengingu atvinnu- og búsvæða
  • Áhrif á byggðaþróun með hliðsjón af byggðaáætlun o.fl.

Þessi nálgun við að bera saman ólíka kosti byggir á að nota fyrirliggjandi gögn, þannig er ekki um neina öflun frumgagna að ræða s.s. viðtöl eða kannanir.

Árið 2023 skilaði RHA skýrslu um samanburð allra jarðgangakosta sem Vegagerðin hafði þá til skoðunar. Fjarðarheiðargöng voru ekki skoðuð þá enda lá ákvörðun um þau þegar fyrir í samgönguáætlun og byggði sú ákvörðun m.a. á niðurstöðu starfshóps innviðaráðherra sem starfaði á árunum 2017-2019.

Höfundar skýrslunnar eru Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur hjá RHA og Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við HA.

Yfirlit um áhrif gangakostanna í fjórum flokkum

Fjarðarheiðargöng

Mjóafjarðargöng

Fjarðarheiðar- og Mjóafjarðargöng sem ein framkvæmd

Arðsemi, innri vextir

-0,91%

0,27%

-0,28%

Spáð fækkun umferðaróhappa á fyrsta ári

(eingöngu eignatjón ; slys)

5,97

(4,32 ; 1,66)

2,12

(1,80 ; 0,32)

9,82

(7,45 ; 2,37)

Tenging atvinnu og búsvæða*

+ + +

+ + +

+ + +

Byggðaþróun*

+ + +

+ + +

+ + +

*) +++ = hæsta einkunn; „mjög jákvæð áhrif“.

 

Arðsemi

Hagfræðileg arðsemi allra kostanna þriggja er lág eins og búast mátti við. Mjóafjarðargöng koma skást út og eru með 1,18 prósentustiga hærri arðsemi er Fjarðarheiðargöng. Báðir kostir sem ein framkvæmd eru með örlítið hærri arðsemi en þarna mitt á milli. Mjóafjarðargöng eru arðsemilslega betri hvað varðar: Kostnað, fjármagnskostnað á framkvæmdatíma og greiðsluvilja umferðar. Fjarðarheiðargöng eru arðsemislega betri hvað varðar kostnað vega umferðaróhappa, greiðsluvilja vegna færri lokunardaga og sparnað í rekstri og viðhaldi eldri mannvirkja. Kostnaður kostanna tveggja er áætlaður:

  • 43.739 Mkr Fjarðarheiðargöng án VSK
  • 37.366 Mkr Mjóafjarðargöng án VSK

 

Fjarðarheiðargöng

Mjóafjarðargöng

Fjarðarheiðar- og Mjóafjarðargöng sem ein framkvæmd

Kostnaður án VSK

43.739 Mkr

37.366 Mkr

81.105 Mkr

Arðsemi, innri vextir

-0,91%

0,27%

-0,28%

 

Umferðaröryggi

  • Fjarðarheiðargöng leggja af hættulegan veg sem er Fjarðarheiði.
  • Vegakerfi með Mjóafjarðargöngum myndi áfram nota þennan hættulega veg.
  • Fjarðarheiðargöng fækka umferðaróhöppum nær þrefalt meira en Mjóafjarðargöng.
  • Fjarðarheiðargöng fækka slysum um fimm sinnum meira en Mjóafjarðargöng.

 

Fjarðarheiðargöng

Mjóafjarðargöng

Fjarðarheiðar- og Mjóafjarðargöng sem ein framkvæmd

Spáð fækkun allra umferðaróhappa á fyrsta ári

5,97

úr 8,78 í 2,80

2,12

úr 5,72 í 3,60

9,82

úr 15,45 í 5,63

Spáð fækkun óhappa á fyrsta ári með eingöngu eignatjóni

4,32

úr 6,56 í 2,24

1,80

úr 4,59 í 2,78

7,45

úr 11,99 í 4,54

Spáð fækkun slysa á fyrsta ári með meiðslum eða dauða.

1,66

úr 2,22 í 0,56

0,32

úr 1,14 í 0,82

2,37

úr 3,46 í 1,10

Sérstök ógn við öryggi vegfarenda sem ný jarðgöng koma í veg fyrir að hluta eða öllu leyti

 

Snjóflóðahætta á Fagradal

Snjóflóðahætta á Fagradal

 

Tengingar svæða

Öll göngin bæta tengingar svæða, aflétta vetrareinangrun og stytta vegalengdir sem leiðir til aukinna samskipta. Hver gangakostur gerir þetta á tiltekinn hátt.

Fjarðarheiðargöng

  • Leysa með mest afgerandi hætti úr vetrareinangrun Seyðisfjarðar.
  • Skapa stystu mögulegu vegalengd milli Seyðisfjarðar, Hringvegar og Egilsstaða, stærsta þéttbýlis landshlutans og miðstöðvar verslunar og þjónustu.
  • Auka samskipti mjög mikið, sérstaklega milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða en einnig milli Seyðisfjarðar og bæjanna í Fjarðabyggð.
  • Ferjuhöfnin á Seyðisfirði sem er mikilvæg í grunnneti samgangna sem gáttin inn í landið fyrir ferjusiglingar til og frá Evrópu verður afar vel tengd við Hringveg.

Mjóafjarðargöng

  • Búa til nýja tengingu suður frá Seyðisfirði til bæjanna í Fjarðabyggð og opna Mjóafjörð með heilsárssamgöngum.
  • Hringtenging verður um svæðið þegar Fjarðarheiði er fær.
  • Fjarðarheiði þyrfti að nota áfram til daglegra samskipta milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða.
    • Þá daga sem Fjarðarheiði er lokuð þyrfti að fara 53 km lengri leið milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar um Hringveg á Fagradal en ef farið væri um Fjarðarheiðargöng.
  • Stökkbreyting verður á samskiptum milli Seyðisfjarðar og bæjanna í Fjarðabyggð vegna nýrrar tengingar þar á milli.

Fjarðarheiðargöng ásamt Mjóafjarðargöngum

  • Valda byltingu í samgöngukerfinu og búa til nýja láglendisleið sem tengir saman byggðir Mið-Austurlands.
  • Samskipti myndu aukast mjög mikið á milli staða og samskiptaleiðir sem ekki eru til í dag verða til.
  • Á því svæði sem þetta vegakerfi myndi þjóna væru alltaf tvær leiðir á milli staða.
  • Tækifæri eða kostir sem fylgja báðum vegakerfunum sem Fjarðarheiðargöng og Mjóafjarðargöng yrðu hlutar af myndu nást með þessari hringtengingu.
  • Annmarkar sem fylgja vegakerfum, sem annars vegar Fjarðarheiðargöng og hins vegar Mjóafjarðargöng mynda, yrðu ekki til staðar.

Byggðaþróun

Allir jarðgangakostirnir styðja við flest og stundum öll opinber markmið á sviði byggðaþróunar sem eru að finna í byggðaáætlun, samgönguáætlun sem meðal annars ætlað að bæta þann grunn sem nauðsynlegur er til að efla atvinnu og bæta samkeppnishæfni, svo sem með betra aðgengi að þjónustu og störfum. Jarðgangakostirnir styðja á mismunandi hátt við fyrirliggjandi stefnumörkun um ferðaþjónustu og rekstur sveitarfélaga.

Allir kostirnir stækka atvinnu- og þjónustusvæði. Í ljósi slæmrar þróunar atvinnumála á Seyðisfirði eru jarðgöng sem stækka vinnusóknarsvæði mikilvæg.

Fjarðarheiðargöng

  • Afnema með afgerandi hætti vetrareinangrun Seyðisfjarðar.
  • Búa til stystu og bestu mögulegu tengingu milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða, fjölmennasta og öflugasta þjónustukjarna landshlutans.
  • Vegalengd styttist frá Seyðisfirði til Fjarðabyggðar og vinnustaða þar, þannig verður Alcoa Fjarðaál vel innan atvinnusóknarfjarlægðar.
  • Fjarðarheiði verður lögð af og þar með einn erfiðasti fjallvegur landsins, það styður m.a. við það markmið samgönguáætlunar að vegkerfið þjóni kynjunum jafnt því rannsóknir hafa sýnt að vegir á borð við Fjarðarheiði eru meiri samgönguhindrun fyrir konur en karla.
  • Bæta með afgerandi aðgengi að ferjuhöfninni á Seyðisfirði, beint frá Hringvegi og styðja þannig við þessa aðra megin gátt ferðamanna inn í landið og stuðla að dreifingu ferðamanna um landið sem hefur verið meðal markmiða ferðamálayfirvalda.
  • Styðja við markmið stjórnvalda um sameiningar sveitarfélaga sem eru fámennari en 1.000 manns og auka sjálfbærni þeirra.

Mjóafjarðargöng

  • Áhrif dreifast víðar.
  • Búa til nýja tengingu milli Seyðisfjarðar og bæjanna í Fjarðabyggð um Mjóafjörð og afnema þar með vetrareinangrun fjarðarins.
  • Fjölbreytt atvinnulíf í Fjarðabyggð verður aðgengilegt fyrir Seyðfirðinga, svo og ýmis þjónusta.
  • Ný leið skapast milli Norðfjarðar og Egilsstaða um Mjóafjarðargöng og Fjarðarheiði.
  • Áfram yrði að nota Fjarðarheiði vegna daglegra ferða milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða. Þá daga sem heiðin er lokuð þyrfti að fara mun lengri leið milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða um bæina í Fjarðabyggð og hringveg um Fagradal sem dregur úr atvinnu- og þjónustusókn.
  • Að nota Fjarðarheiði áfram til daglegra samskipta milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða er ekki í anda þess að afnema vetrareinangrun með afgerandi hætti og að þróa vegakerfi sem þjónar kynjunum jafnt samanber markmið samgönguáætlunar þar að lútandi.
  • Styðja ekki við markmið stjórnvalda um sameiningar sveitarfélaga sem eru fámennari en 1.000 manns og auka sjálfbærni þeirra.

Fjarðarheiðargöng og Mjóafjarðargöng

  • Virðast uppfylla vel öll opinber markmið á sviði byggðaþróunar og myndu styðja mjög vel við þróun Mið-Austurlands og landshlutans alls á öllum sviðum mannlífsins.
  • Til yrði láglendisleið sem myndi styðja vel við byggð á Mið-Austurlandi og skapa fjölmörg tækifæri til þróunar byggðar.

 

Í skýrslunni er bent á að í mati á samfélagslegum áhrifum framkvæmda er oft fjallað um áhrif þeirra á andann í samfélaginu. Þetta hefur þó aldrei verið hluti aðferðafræðinnar sem þessi rannsókn styðst við. Hún er stórsæ og gert ráð fyrir að beita henni framarlega í undirbúningsferli framkvæmda.

Í þessu tilviki er þó einn jarðgangakosturinn, Fjarðarheiðargöng, búinn að vera fremst í forgangi í opinberum áætlunum stjórnvalda í fimm ár og hafa íbúar á áhrifasvæði ganganna gert sér réttmætar væntingar um að framkvæmdir við göngin hæfust fyrst allra ganga eftir fimm ára langt framkvæmdahlé í jarðgangagerð á Íslandi.

Höfundar benda á að það má búast við neikvæðum áhrifum á andann í samfélaginu í Múlaþingi, einkum á Seyðisfirði verði hróflað við framkvæmdaröð á jarðgöngum í landshlutanum og að það valdi mögulega neikvæðum áhrifum á samstöðu innan landshlutans.

Sjá skýrsluna hér.