Meirihluti vill stytta þjóðveginn sunnan Blönduóss

Samkvæmt nýrri netkönnun sem Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri framkvæmdi fyrir SSNE um innviði á Norðurlandi Eystra telja 43% þátttakenda þjóðvegina á svæðinu frekar eða mjög góða, hins vegar telja aðeins 9% stöðu sveitavega frekar eða mjög góða og 68% telja þá frekar eða mjög slæma.

Telja mikilvægast að fækka einbreiðum brúm

Þátttakendur voru beðnir um að velja þær þrjár endurbætur á innviðum sem þeir teldu mikilvægastar á næstu árum og völdu þá flestir að fækka einbreiðum brúm, næst flestir að laga hættulega staði í vegakerfinu og þar á eftir að leggja bundið slitlag á malarvegi. Athygli vekur hve mikill munur er milli svara eftir búsetu. Til dæmis sögðu 90% íbúa Fjallabyggðar það mikilvægt að gera jarðgöng, en einungis 12% íbúa Húsavíkur.

Þátttakendur voru spurðir um mikilvægi breytinga á Hringvegi milli Akureyrar og Reykjavíkur, sú tillaga sem naut mests stuðnings var að stytta þjóðveginn, en 63% svarenda sögðu frekar eða mjög mikilvægt að stytta þjóðveginn um 15 km sunnan Blönduóss (Húnavallaleið).

Spurt var einnig um jarðgöng undir Öxnadalsheiði, ný Tröllaskagagöng (löng jarðgöng norðar á Tröllaskaga, t.d. undir Hörgárdalsheiði, og um 6 km styttingu í Skagafirði (Vindheimaleið).

89% telja mikilvægt að Reykjavíkurflugvöllur sé á sama stað

92% svarenda sögðust mjög eða frekar sammála því að Reykjavíkurflugvöllur væri nauðsynlegur til að halda tengslum við höfuðborgina. Jafnframt sögðust 89% svarenda frekar eða mjög sammála þeirri staðhæfingu að mikilvægt væri að hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er staðsettur nú. Athyglisvert er að 80% svarenda 65 ára og eldri sögðust mjög sammála þessu en einungis 57% svarenda á aldrinum 20-45 ára.

Í takt við þetta sögðust 88% mjög eða frekar ósammála staðhæfingunni: mér hugnast vel að miðstöð innanlandsflugs flytjist til Keflavíkurflugvallar. Einnig sögðu 88% þátttakenda frekar eða mjög sammála því að mikilvægt væri að efla þjónustu í landshlutanum ef flugvöllurinn í Reykjavík leggst af. Þá sögðust 65% frekar eða mjög sammála því að samgöngur um landleiðina verði mikilvægari í framtíðinni.

Segja búsetuskilyrði batna með millilandaflugi

Um fjórðungur svarenda (26%) höfðu nýtt sér nýhafið millilandaflug frá Akureyrarflugvelli, en 77% höfðu áform um að nýta sér það á næstu 6 mánuðum. 86% svarenda sögðust frekar eða mjög sammála því að búsetuskilyrði sín batni við að fá reglulegt millilandaflug frá Akureyrarflugvelli. Svarendur búsettir á Akureyri og nágrenni Akureyrar voru einkum mjög sammála þessari staðhæfingu (70% á Akureyri og 72% á Akureyri og nágrenni, samanborið við 43% á Húsavík).

Telja innviði fyrir rafbíla ábótavant

Þátttakendur voru spurðir út í rafbílaeign og innviði. Einungis 7% áttu rafbíl en 37% sögðust stefna að því að kaupa slíkan innan þriggja ára. Tæpur helmingur (46%) sagðist ekki ætla að fá sér rafbíl. Þeir sem áttu rafbíl höfðu lang flestir (60%) átt hann í eitt ár. Einungis 6% svarenda voru frekar eða mjög sammála því að hraðhleðslustöðvar væru á nægilega mörgum stöðum við þjóðveginn. Enn færri, eða 4%, sögðust frekar eða mjög sammála því að hraðhleðslustöðvar væru nægilega margar á hverjum stað við þjóðveginn. 60% voru frekar eða mjög ósammála því að rafbílar hefðu nægilega drægni fyrir langferðir. Einungis 14% voru frekar eða mjög sammála að rafbílar henti til vetraraksturs.

Ríflega helmingur þeirra í Eyjafjarðarsveitar og Hörgársveitar vinna á Akureyri

Íbúar á Norðurlandi Eystra sækja margir hverjir atvinnu í öðru bæjarfélagi en því sem þeir búa í. Algengast virðist að íbúar í nærliggjandi byggðum við Akureyri sæki vinnu þangað. Til dæmis sækja 54% íbúa Eyjafjarðarsveitar sem tóku þátt í könnuninni atvinnu til Akureyrar sem og 63% íbúa Hörgársveitar, og 27% íbúa Svalbarðsstrandarhrepps. Þeim fækkar sem sækja atvinnu til Akureyrar eftir því sem lengra er að fara á milli, 8% íbúa Dalvíkur sækja vinnu til Akureyrar og enginn frá Húsavík né Siglufirði sótti atvinnu til Akureyrar í þessari könnun.

Einnig sækja íbúar atvinnu til mismunandi bæja innan sama sveitarfélags, 23% íbúa Ólafsfjarðar sækja atvinnu til Siglufjarðar og 16% íbúa Siglufjarðar sækja atvinnu í Ólafsfirði.

Könnunin var framkvæmd í september 2022 og bárust alls 969 svör, 51.39% svarenda voru konur en 48.61% karlar.

Hér má skoða könnunina í heild sinni.