Sigríður Bjarnadóttir og Lara Hoffmann hófu nú á haustmánuðum störf hjá RHA og eru þær ráðnar til eins árs.
Sigríður hefur verið ráðin í starf sérfræðings hjá RHA. Sigríður hefur starfað sem deildarstjóri við Háskólann á Hólum (HH) og brautarstjóri hjá Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) auk þess að hafa unnið fjölbreytt sérfræði- og ráðgjafarstörf, einkum með snertiflöt við landbúnaðinn. Hún er með meistaragráðu í búfjárrækt frá norska Lífvísindaháskólanum, kennslufræði frá Háskólanum á Akureyri og diplómapróf í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum auk þess að vera með BS í hestafræði frá LbhÍ og HH. Sigríður er á efri myndinni til vinstri.
Lara hefur verið ráðin í starf sérfræðings hjá RHA. Lara hefur undanfarin ár starfað sem nýdoktor við Háskóla Íslands og stundakennari við bæði Háskólann á Akureyri og Háskólann á Bifröst. Hún lauk doktorsprófi í félagsfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2022. Rannsóknir Löru fjalla meðal annars um innflytjendur og samfélagsþróun á Norðurlöndum. Hún starfar áfram sem nýdoktor samhliða hlutastarfi hjá RHA. Helstu verkefni Löru hjá RHA tengjast inngildingarverkefni opinberra háskóla, auk þess sem hún er starfsmaður jafnréttisráðs Háskólans á Akureyri. Lara er á neðri myndinni til hægri.
Sigríður og Lara hafa þegar hafið störf og við bjóðum þær hjartanlega velkomnar í hóp starfsfólks RHA og óskum þeim velfarnaðar í starfi.