Rannsókn á samfélagsáhrifum álvers- og virkjunar á Austurlandi, úrtakskönnun vorið 2007

Komin er út skýrsla sem er hluti rannsóknar á samfélagsáhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi. Hér er um að ræða viðhorfskönnun meðal almennings á landinu öllu sem fram fór vorið 2007. Höfundar skýrslunnar eru Hjalti Jóhannesson og Tryggvi Guðjón Ingason.
Fram koma margar athyglisverðar niðurstöður. Mikil og jákvæð áhrif framkvæmdanna eru sýnileg á svokölluðu miðsvæði Austurlands, svo sem hvað varðar ánægju með atvinnutekjur og fjölbreytni starfa. Þátttaka almennings í framkvæmdunum hefur verið mikil á því svæði og hvað flesta þætti varðar má sjá jákvæðar breytingar á búsetuskilyrðum frá síðustu könnun sem fram fór 2004. Á svokölluðum norður- og suðursvæðum, þ.e. í meira en 2ja klst. akstursfjarlægð fram framkvæmdunum kveður hinsvegar við annan tón. Svarendur þar upplifa minni jákvæð áhrif vegna framkvæmdanna og hvað suma þætti varðar upplifir fólk talsverð neikvæð áhrif. Eftirtektarvert er að þessi neikvæðu áhrif eru sýnilegri á suðursvæði en norðursvæðinu. Skýrslan er aðgengileg hér á vef RHA.