Samgöngustefna Norðurlands eystra

Við undirskrift verkefnisins. Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður RHA, Hilda Jana Gísladóttir…
Við undirskrift verkefnisins. Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður RHA, Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar SSNE og Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur RHA.

Stjórn Samtaka sveitarfélaga- og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) samþykkti nýverið að veita RHA styrk til að vinna að samgöngustefnu Norðurlands eystra. Samgöngustefnan er eitt af ellefu áhersluverkefnum samtakanna fyrir þetta ár og er áætlað að verkefninu ljúki í apríl 2022.

Markmið verkefnisins er að greina framtíðar vegaframkvæmdir eða samgöngukosti sem varða starfssvæði SSNE þannig að unnt sé að forgangsraða þessum kostum kerfisbundið með hag almennings, atvinnu- og efnahagslíf landshlutans í huga. Mikilvægt er fyrir landshlutann að koma sameinaður út á við með eigin forgangsröðun á samgöngukostum. Margir samgöngukostir eru þegar komnir á langtímasamgönguáætlun, aðrir hafa verið í umræðunni í lengri eða skemmri tíma án þess að hafa komist á áætlunarstig og loks er líklegt að fram geti komið kostir sem hafa lítt eða ekkert verið reifaðir.

„Við teljum mikilvægt að greina framtíðar vegaframkvæmdir eða samgöngukosti á starfssvæði SSNE þannig að unnt sé að forgangsraða þeim kostum kerfisbundið með hag almennings, atvinnu- og efnahagslífs landshlutans í huga. Stjórn telur mikilvægt fyrir landshlutann að ná fram sameiginlegri sýn heimafólks á forgangsröðun samgöngukosta, bæði innan landshlutans og á milli landshluta, enda eru góðar samgöngur forsenda jákvæðrar samfélags- og atvinnuþróunar“ , segir Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar SSNE.