Skotveiðar og ferðaþjónusta - atvinnutækifæri fyrir frumkvöðla

Dagana 17. - 18. nóv. sl. var haldin þriðja og síðasta ráðstefnan í North Hunt verkefninu, sem RHA hefur verið þátttakandi í síðastliðin fjögur ár.  Ráðstefnan var haldin í Rovaniemi í Finnlandi og var fyrri dagurinn helgaður þróun fyrirtækja í skotveiðitengdri ferðaþjónustu en á þeim seinni voru kynntar rannsóknir á atvinnutækifærum sem leiða af skotveiðitengdri ferðaþjónustu.
Þátttakendur á ráðstefnunni voru um 120 frá sex löndum.  Meðal þátttakenda voru rannsakendur, sérfræðingar, stjórnendur, ferðaþjónustuaðilar og frumkvöðlar í skotveiðitengdri ferðaþjónustu.  Á ráðstefnunni voru tíu þátttakendur frá Íslandi, þar af sex sem starfa í skotveiðitengdri ferðaþjónustu.  Eftir fyrri ráðstefnudaginn var öllum sem höfðu áhuga á, gert kleift að hittast, kynna sínar vörur og mynda tengslanet.
Ráðstefnan var vel heppnuð í alla staði og var það mat íslensku frumkvöðlanna að þeir hefðu mikið gagn af þessari ráðstefnu og hafi farið heim með gott veganesti.
Dagskrá ráðstefnunnar ásamt kynningarefni fyrirlesara er að finna á heimsíðu North Hunt verkefnisins www.north-hunt.org. Á þeirri heimasíðu er einnig að finna niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið í gegnum þetta verkefni.