Styrkur úr Byggðarannsóknasjóði til að rannsaka óstaðbundin störf

RHA fékk í gær úthlutað styrk úr Byggðarannsóknasjóði til að rannsaka reynslu ríkisstofnanna og ráðuneyta af því að bjóða upp á óstaðbundin störf. Rannsóknin hefur vísan í aðgerð B.7 í aðgerðaáætlun stefnumótandi byggðaáætlunar 2022-2036 sem hefur það markmið að efla búsetufrelsi með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa á landsbyggðinni.

Viðtöl verða tekin við starfsfólk í óstaðbundnum störfum og mannauðsstjóra/forstöðufólk stofanna og ráðuneyta með óstaðbundið starfsfólk til að kanna reynslu þeirra af úrræðinu. Niðurstöður viðtala og rýnihóps verða teknar saman í þeim tilgangi að öðlast betri innsýn í reynsluna af óstaðbundnum störfum og hvað megi betur fara til að þessi byggðaaðgerð nýtist á sem farsælastan hátt.

Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur hjá RHA, leiðir rannsóknina en samstarfsaðili er kjara- og mannauðssýsla ríkisins.

Umsóknir í Byggðarannsóknasjóð voru 22 talsins, en fimm verkefni voru styrkt.