Verkefni sem rannsakar stöðu láglaunakvenna á íslenskum vinnumarkaði fékk styrk úr Jafnréttissjóði

Kristín Heba Gísladóttir (Vörðu), Berglind Hólm Ragnarsdóttir og Anna Soffía Víkingsdóttir (RHA)
Kristín Heba Gísladóttir (Vörðu), Berglind Hólm Ragnarsdóttir og Anna Soffía Víkingsdóttir (RHA)

Hópur rannsakenda frá Háskólanum á Akureyri hlaut á dögunum fjögurra milljóna króna styrk úr Jafnréttisjóði. Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við Hug- og félagsvísindasvið, fer fyrir rannsóknarhópnum. Auk hennar eru í hópnum Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Hug- og félagsvísindasvið, Bergljót Þrastardóttir, lektor við Kennaradeild, og Valgerður S. Bjarnadóttir, nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknin er unnin í samstarfi við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) og Vörðu – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins.

Verkefnið ber titilinn Working- Class women, Well-being and the Welfare State: New Evidence from the Icelandic Context.

Markmið verkefnisins er að rannsaka stöðu láglaunakvenna á íslenskum vinnumarkaði. Rannsóknin er tvíþætt: Annars vegar verður kannað hvernig ólíkir þættir sem tengjast vinnu og fjölskyldulífi hafa áhrif á líkamlega og andlega velferð kvenna á Íslandi og samspil þess við félags- og efnahagslega stöðu þeirra. Hins vegar er rannsókninni ætlað að koma á framfæri reynslu láglaunakvenna af velferðarkerfinu og hlutverki þess í að sporna við og viðhalda félagslegum ójöfnuði.