Mynd/G. Pétur Matthíasson
Talsverður kynjamunur er í vinnusókn þeirra sem búa á jaðarsvæði höfuðborgarsvæðisins og sækja vinnu til höfuðborgarsvæðisins og meðal þeirra sem búa í nærsveitum Akureyrarbæjar og sækja vinnu til Akureyrar. 65% kvenna sem sóttu vinnu utan heimabyggðar gerðu það 5 sinnum í viku eða oftar fyrir Covid en aðeins 45% eftir Covid. Breytingin er þó einungis 4 prósent hjá körlum, úr 75% í 71%.
Þetta kom fram í máli Sæunnar Gísladóttur, sérfræðings hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri á Rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar þann 27. október síðastliðinn. Sæunn kynnti rannsóknina Áhrif fjarvinnu á vegakerfið sem hlaut styrk frá rannsóknasjóði Vegagerðarinnar í vor. Hún vann rannsóknina ásamt Önnu Soffíu Víkingsdóttur, sérfræðingi hjá RHA.
Sæunn benti á í kynningunni að 31% íbúa jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið og 23% íbúa nærsveita Akureyrar sem sækja vinnu til Akureyrar segja að breyting hafi orðið á vinnusókn sinni í kjölfar Covid-19 faraldursins.
Hellisheiðin gæti haft áhrif
Mesta breyting hefur orðið á vinnusókn íbúa Suðurlands til höfuðborgarsvæðisins, en 39% þátttakenda þaðan sögðu mun á vinnusókn sinni eftir Covid. 69% íbúa Suðurlands sem sóttu vinnu til höfuðborgarsvæðisins fyrir Covid gerðu það 5 sinnum í viku eða oftar en nú gera 35% það. Flestir íbúar Suðurlands sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið gera það nú 4 sinnum í viku, frekar en 5 sinnum í viku. Það er athyglisvert að fyrr í október lokaði Hellisheiði og bílar festust og þetta hefur verið algengt í fréttum undanfarin ár – fólk sem sækir vinnu frá Suðurlandi er að þessu leyti í öðruvísi stöðu en aðrir því það keyrir yfir heiði.
Árleg rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar var haldin í 22. sinn þann 27. október síðastliðinn. Ráðstefnan var vel sótt, en dagskráin var fjölbreytt að venju, fluttir voru 16 fyrirlestrar og 12 veggspjöld kynnt.
Rannsóknaráðstefnan endurspeglar hið mikla starf sem rannsóknasjóður Vegagerðarinnar vinnur en sjóðurinn gegnir mikilvægum þætti í starfsemi stofnunarinnar. Markmið sjóðsins er; að hafa frumkvæði að rannsókna- og þróunarstarfi, sem stuðlar að því að Vegagerðin geti uppfyllt sett markmið á hverjum tíma. Að afla nýrrar þekkingar á sviði vega- og samgöngumála og að stuðla að því að niðurstöður varðandi aðferðir, efnisnotkun og hagkvæmara vinnulag skili sér í stöðlum og breyttu verklagi.
Mikil ásókn er í sjóðinn en árið 2023 bárust 124 umsóknir upp á samtals 365 milljónir króna. Af þessum 124 umsóknum fengu 78 verkefni styrk fyrir samtals 150 milljónir króna en það er fjárveitingin sem sjóðurinn hefur til umráða samkvæmt samgönguáætlun.
Hér má lesa skýrslu RHA Áhrif fjarvinnu á vegakerfið í heild sinni og hér má sjá innslag í kvöldfréttum RÚV um rannsóknina.