Á laugardaginn hlaut Vísindaskóli unga fólksins viðurkenningu Rannís fyrir framúrskarandi Vísindamiðlun ársins 2025.
Viðurkenningin var veitt á opnun Vísindavöku af Sigríði Valgeirsdóttur, fulltrúa ráðuneytis menningar, nýsköpunar- og háskóla. Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri og Dana Rán Jónsdóttir, verkefnastjóri Vísindaskólans tóku við viðurkenningunni við opnun Vísindavöku Rannís 2025.
Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri sér um rekstur og skipulag Vísindaskólans þar sem að Dana, sérfræðingur hjá RHA, heldur utan um verkefnið ásamt Sigrúnu Stefánsdóttur, fjölmiðlafræðingi, stundakennara við háskólann, fyrrverandi forseta hug- og félagsvísindasviðs og upphafsmanneskju Vísindaskólans.
Vísindaskólinn er fyrir 11-13 ára gömul börn og stendur yfir í eina viku í júní þar sem kennd eru 5 ólík námskeið með það að markmiði að gefa ungmennum innsýn í starfsemi og rannsóknir ólíkra fræðigreina innan HA. Frá upphafi hefur kennslan verið byggð á virkri þátttöku nemenda og lögð er áhersla á að fá hæfasta fólkið sem völ er á til að miðla sinni þekkingu. Skólinn er í góðri samvinnu við fyrirtæki á svæðinu og auk þess að kynnast vísindastarfi háskólans, hafa nemendur fengið innsýn í starfsemi þeirra. Nærri 900 nemendur hafa sótt skólann frá upphafi og hefur þátttaka í Vísindaskólanum stuðlað að því að opna augu þeirra fyrir mikilvægi háskóla- og vísindastarfs.
Hátt í 90 nemendur tóku þátt í starfi Vísindaskólans í sumar og var boðið upp á að kynnast ólíkum viðfangsefnum eins og gervigreind, ljósmyndun, plöntuskoðun, núvitund, Alþingi, lífinu í gamla daga, fjármálum unglinga, endurnýtingu á fatnaði og þróun mannsins.
Í lok hvers Vísindaskóla er haldin hátíðleg útskrift sem svipar til brautskráningar kandídata við Háskólann á Akureyri. Rektor mætir við útskriftina og einn heiðursgestur, sem í ár var forseti Íslands, Halla Tómasdóttir.