Fjölmenning, rekstur bæjarfélags, orkunýting, lífeðlisfræði og landbúnaður voru þemu Vísindaskóla unga fólksins 2020 sem útskrifaði nemendur sína á afmælisdegi forseta Íslands þann 26. júní. Þetta er í sjötta skipti sem Vísindaskólinn er haldinn í tengslum við Háskólann á Akureyri. Börn á aldrinum 11-13 ára geta tekið þátt í Vísindaskólanum. Flestir þátttakendur koma af Eyjafjarðarsvæðinu en hann er hins vegar opinn börnum óháð búsetu. „Reynslan hefur sýnt að mörg börn koma 3 ár í röð eða eins oft og þau geta enda lögð áhersla á að hafa ný þemu á hverju ári“ segir Sigrún Stefánsdóttir sem hefur verið skólastjóri Vísindaskólans frá upphafi. Gert er ráð fyrir því að skólinn verði á sama tíma á næsta ári, síðustu vikuna í júní. Á undanförnum árum hafa fjölmargir aðilar styrkt skólann á ýmsan hátt en þessi stuðningur gerir framkvæmdina mögulega.
Yfirskrift á þemunum fimm er eftirfarandi:
- Góður bær, betri bær
- Er hjartað bara líffæri?
- Hvernig ferðumst við án olíu?
- Sameiginleg framtíð okkar allra
- Afi minn og amma mín út á Bakka búa
Allar frekari upplýsingar veita Sigrún Stefánsdóttir skólastjóri í síma s. 861-4499 og Dana Rán Jónsdóttir verkefnastjóri í síma 460-8906.