Fyrir nokkru skilaði Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) skýrslu með mati á brýnum samfélagslegum hagsmunum vegna umsóknar um að breyta friðlýsingarskilmálum sbr. 44 gr. laga um náttúruvernd vegna Vatnsdalsvirkjunar í Vatnsfirði. Skýrslan var unnin fyrir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Ráðherra hefur efnislega tekið undir niðurstöður greiningarinnar.
Samandregið er niðurstaða skýrslunnar sú að þrátt fyrir að brýnir samfélagslegir hagsmunir séu til staðar þá sé ekki auðvelt að rökstyðja að aflétting eða breyting friðlýsingar friðlandsins í Vatnsfirði sé rétta leiðin til að bæta þar úr. Ástæðan er bæði sú að færð hafa verið sterk rök fyrir því að svæðið hafi mikla þýðingu í neti verndarsvæða, það sé ekki hægt að stofna sambærilegt svæði annars staðar og að ef friðun sé aflétt færumst við sem þjóð fær markmiðum um friðun svæða í þágu líffræðilegrar fjölbreytni. Á það var bent í viðtali við sérfræðinga á sviði náttúruverndar að fordæmisgildi ákvörðunar um að afnema friðun svæðis sé auk þess ákaflega varasamt og að allir ættu að gera sér grein fyrir því að þetta ætti aldrei að vera ákvörðun sem létt er að taka.
Bent er á það í þessari skýrslu að aðrar leiðir sem skila um það bil sama árangri til þess að bæta raforkuöryggi og raforkuframboð á Vestfjörðum eru færar. Þar er um að ræða að nýta virkjunarkosti sem þegar hafa farið gegnum rammaáætlun. Einnig eru fleiri virkjunarkostir í sjónmáli sem eru komnir langt í ferli rammaáætlunar og hafa fengið jákvæða umsögn hjá verkefnisstjórn. Þá er tenging stærsta orkukostsins, Hvalárvirkjunar, við flutningskerfið í undirbúningi og umhverfismat að hefjast.
Hér má lesa skýrsluna í heild sinni. Verkefnastjóri rannsóknarinnar var Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur hjá RHA, en auk hans unnu Arnar Þór Jóhannesson, forstöðumaður RHA, og Gró Einarsdóttir, sérfræðingur hjá RHA, að skýrslunni.