Göng undir Hrafnseyrarheiði arðsöm og ný hugsun í vegamálum?

Nú fyrir skömmu gerðu þeir Hjalti Jóhannesson og Jón Þorvaldur Heiðarsson, sérfræðingar hjá RHA, víðreist og héldu erindi Fjórðungsþingi Vestfjarða sem haldið var á Patreksfirði. Þar kynntu þeir félagar niðurstöður skýrslu sem unnin var á vegum RHA og sem ber heitið Samanburður vegtenginga á Vestfjörðum - Vestfjarðavegur og Djúpvegur- Samfélagsáhrif og arðsemi.

Í skýrslunni kemur ýmislegt áhugavert fram, sér í lagi kann mörgum að þykja það athygliverð niðurstaða að áætluð arðsemi af hugsanlegum jarðgöngum undir Hrafnseyrarheiði er viðunandi.  Mikil umræða hefur verið undanfarin misseri um vegamál og virðast ýmsir gera því skóna að framkvæmdir utan höfuðborgarsvæðisins geti alls ekki verið arðsamar en þessi rannsókn RHA sýnir einmitt hið gagnstæða.  Áhugasamir geta nálgast skýrsluna hér.  Eins og gefur að skilja spunnust fjörugar umræður um vegamál í tengslum við erindi Jóns og Hjalta og í þeim umræðum var ánægjulegt að heyra að svo virðist sem hugmyndir um aðferðir við mat og forgangsröðun framkvæmda í vegakerfinu sem settar voru fram í viðamiklu þróunar- og rannsóknarverkefni RHA sem unnið var á árunum 2001-2003 séu farnar að fá nokkurn hljómgrunn.  Þeim sem vilja kynna sér þessar hugmyndir er bent á skýrsluna Samgöngubætur og félags- og efnahagsleg áhrif þeirra en þessar hugmyndir voru ekki öllum (sér í lagi ekki öllum stjórnmálamönnum) að skapi. Hér má nálgast umrædda skýrslu.