Prófessorsstaða Nansen í norðurslóðafræðum við HA

Utanríkisráðherrar Íslands og Noregs undirrituðu viljayfirlýsingu í september 2011 um rannsóknasamstarf á sviði norðurslóðafræða. Þar er kveðið á um gestaprófessorsstöðu í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri sem kennd væri við norska heimskautafræðinginn Fridtjof Nansen.

Laus er til umsóknar staða gestaprófessors í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri. Staðan er veitt til eins árs í senn framúrskarandi vísindamanni sem starfar að málefnum er tengjast lagalegum, hagrænum, félagslegum og náttúrufarslegum aðstæðum á norðurslóðum.

Umsóknarfrestur er til 15. ágúst 2012 og gert er ráð fyrir að ráðningartímabil hefjist 1. október 2012 eða samkvæmt nánara samkomulagi.

Úthlutun úr Háskólasjóði KEA

Hannes Karlsson, stjórnarformaður KEA og forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhentu í dag styrki úr Háskólasjóði KEA við athöfn sem fram fór á Sólborg, húsnæði Háskólans á Akureyri við Norðurslóð, en skólinn fagnar 25 ára afmæli sínu á árinu. Að þessu sinni voru veittir tíu rannsóknarstyrkir en nítján umsóknir bárust sjóðnum. Við úthlutun úr sjóðnum er horft til þess að verkefnin tengist starfsemi skólans. Einnig hlutu þrír nemar viðurkenningu fyrir góðan námsárangur við brautskráningu fyrr um daginn. Þetta er í tíunda sinn sem úthlutað er úr Háskólasjóði KEA og var heildarupphæð styrkja 3,7 mkr.