Hátíðarkveðja RHA

Starfsfólk RHA-Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri sendir öllum samstarfsaðilum og viðskiptavinum hugheilar jóla- og nýárskveðjur og þakkar fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Með hátíðarkveðju og von um ánægjulegt samstarf á nýju ári.

Starfsfólk RHA

Út er kominn skýrslan Verum klár – borðum fisk

Út er kominn skýrslan Verum klár – borðum fisk. Hún inniheldur samantekt á verkefni sem hafði það að markmiði að vekja athygli grunnskólabarna á Akureyri  á hollustu sjávarfangs. Gefið var út plakat og bæklingur  um hollustu sjávarfangs með slagorðinu “Verum klár – borðum fisk”.   Heimilisfræðikennarar voru fengnir til að taka þátt í vettvangsferðum nemenda 6. bekkjar á sjó og  fjalla  um bæklinginn verum klár –borðum fisk í kjölfar ferða. Þannig var  unnið að því að  tengja upplýsingar um hollustu sjávarfangs við jákvæða upplifun nemenda af vettvangsferðinni á Húna II.

Heimasíða North Hunt opnuð

RHA – Rannsókna og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri er þáttakandi í 3 ára alþjóðlegu verkefni og kallast verkefnið North Hunt.

Þátttakendur í verkefninu eru 10 og koma frá 5 löndum Finnlandi, Svíþjóð, Kanada, Skotlandi og Íslandi. Verkefnið gengur út á þróun sjálfbærrar skotveiðitengdrar ferðaþjónustu á jaðarsvæðum á norðurslóðum. Markmið verkefnisins er að stuðla að fjölbreytni í atvinnulífi og skjóta frekari stoðum undir vaxandi atvinnugrein með þróun starfsumhverfis og rekstrargrundvallar fyrirtækja. Ennfremur er markmið verkefnisins að þróa starfsumhverfi fyrirtækja til að draga úr hindrunum sem mæta frumkvöðlum í þessari grein, án þess að minnka kröfur um sjálfbærni og umhverfisvænar veiðar.

Brostu með hjartanu!

Verkefnið Brostu með hjartanu er gott dæmi um frumkvæði á jákvæðum nótum. Verkefninu var nýlega hrundið af stað á Akureyri og segir í fréttatilkynningu frá forsvarsmönnum verkefnisins, að markmiðið sé að dreifa jákvæðni og gleði á meðal almennings.


Rannsóknir á samfélagsáhrifum á Austurlandi

Um þessar mundir er í gangi könnun meðal íbúa á áhrifasvæði álvers- og virkjanaframkvæmda á Austurlandi.  Könnun þessi er einnig send til íbúa í Eyjafirði og er úrtakið alls 4.200 manns.  Á næstu vikum verður send út könnun til fyrirtækja á áhrifasvæði framkvæmdanna.  Báðar þessar kannanir eru liður í gagnaöflun fyrir rannsókn á samfélagsáhrifum framkvæmdanna en henni mun ljúka á næsta ári.

Nýjustu rannsóknaskýrslunni var skilað til Iðnaðarráðherra og Iðnaðarnefndar Alþingis 11. júní síðastliðinn og lýsir hún stöðu samfélagsins í árslok 2007.

Málstofa RHA um ritrýnd tímarit

Talsverð umræða hefur verið um ritrýnd tímarit síðustu misseri og ekki síst um ISI gagnagrunna og ISI greinar. Að þessu tilefni stóð RHA fyrir málstofu um ritrýnd tímarit fimmtudaginn 16. október sl.

 

Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður RHA, opnaði og stýrði málstofunni. Erindi fluttu auk hennar, Astrid Margrét Magnúsdóttir, forstöðumaður upplýsingasviðs HA, Bryndís Brandsdóttir frá Raunvísindastofnun HÍ og ritstjóri tímaritsins Jökuls, Þóroddur Bjarnason, prófessor við HA, Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við HA, Sigríður Halldórsdóttir, prófessor við HA og Páll Björnsson, lektor við HA og ritstjóri tímaritsins Sögu.

RANNSÓKNASJÓÐUR HÁSKÓLANS Á AKUREYRI AUGLÝSIR EFTIR UMSÓKNUM

Rannsóknasjóður Háskólans á Akureyri auglýsir hér með eftir umsóknum.

Umsóknareyðublað og reglur sjóðsins er að finna á heimasíðu RHA á slóðinni: http://www.rha.is/?mod=sidur&mod2=view&id=43

Umsækjendur athugi að hafi þeir sótt um styrk í sjóðinn áður og fengið úthlutað þá þarf framvindu- eða lokaskýrsla að liggja fyrir hjá sjóðstjórn áður en hægt er að afgreiða nýja umsókn.

Nýr starfsmaður stjórnsýslu rannsókna RHA

Ólína Freysteinsdóttir, sem starfað hefur sem verkefnisstjóri stjórnsýslu rannsókna RHA, er á leið í barneignarleyfi. Hjalti S. Hjaltason (hjaltih@unak.is) hefur hafið störf sem verkefnisstjóri stjórnsýslu rannsókna RHA samhliða Ólínu og mun svo sinna því starfi að fullu í fjarveru Ólínu.

Þarfagreining vegna menningarhúsnæðis í Sveitarfélaginu Árborg

Nú á dögunum kynntu Valtýr Sigurbjarnarson og Hjalti Jóhannesson, sérfræðingar RHA skýrslu um þarfagreiningu vegna menningarhúsnæðis í Sveitarfélaginu Árborg.  Skýrslan er aðgengileg hér á vefnum.

Vísindavaka Rannís 2008

Gunnhildur Helgadóttir, Hjalti Jóhannesson og Tryggvi Hallgrímsson tóku fyrir hönd RHA þátt í Vísindavöku Rannís föstudaginn 26. september.  Lögð var áhersla á hina miklu breidd sem verkefni RHA spanna.  Einnig voru kynnt sérstaklega verkefnin Tea for Two og Rannsókn á samfélagslegum áhrifum virkjunar og álvers á Austurlandi.  Vísindavakan var að venju fjölsótt og var haft á orði að e.t.v. þyrfti að huga að stærra húsnæði fyrir hana að ári.