RHA og Miðstöð skólaþróunar við HA hljóta styrk vegna rannsóknar á samfélagslegu hlutverki háskóla

Nýverið kynnti Rannsóknastofa um háskóla að RHA og Miðstöð skólaþróunar HA hlytu styrk til rannsóknar á félagslegu hlutverki háskóla. Að baki rannsókninni stendur teymi sex fræðimanna frá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands. Rannsóknastofa um háskóla auglýsti í janúar síðastliðnum styrk til rannsóknar á eftirfarandi viðfangsefnum:

  1. Hvernig skilja íslenskir háskólakennarar og sérfræðingar starfsskyldur sínar og fagmennsku?
  2. Hvernig skilja íslenskir háskólakennarar samfélag sitt og samfélagslegar skyldur?

Rannsóknina má rekja til þess að í kjölfarið á hruni íslenska bankakerfisins var kallað eftir ítarlegri endurskoðun og mati á ýmsum gildum sem samfélagið hefur verið reist á. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var m.a. vikið að háskólasamfélaginu og gagnrýni á það kom fram. Samþykkti menntamálaráðherra árið 2010 tillögu stjórnar Rannsóknastofu um háskóla um að fé yrði varið til að vinna að rannsóknum á háskólunum í þessu samhengi.

Í umsögn verkefnisstjórnar Rannsóknarstofu um háskóla segir að verkefnisumsókn hafi verið ítarlega rökstudd og sterkur rannsóknarhópur standi að baki henni.

 

Styrkir úr Sprotasjóði

RHA er umsýsluaðili sjóðsins sem er á vegum menntamálaráðuneytisins en ráðuneytið auglýsir nú eftir umsóknum um styrki úr Sprotasjóði leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Námskeið í gerð umsókna í 7. rannsóknaáætlun ESB

RHA hélt námskeið í gerð umsókna í 7. rannsóknaáætlun ESB fyrir starfsfólk Háskólans 15. mars síðastliðinn. Kennari var Dr. Sigurður Bogason hjá fyrirtækinu MarkMar sem hefur sérhæft sig í umsýslu með ESB-verkefnum. Háskólakennarar og sérfræðingar af flestum fræðasviðum sóttu námskeiðið sem var afar hagnýtt. Fengu þeir þar góða innsýn í umsóknarferlið og góð ráð um hvernig rétt er að bera sig að við umsóknir. RHA vill hvetja áhugasama til þess að heimsækja heimasíðu 7. rannsóknaáætlunarinnar hjá Rannís þar sem nánari upplýsingar eru í boði og leita fyrir sér um áhugaverð rannsóknaverkefni og mögulega samstarfsaðila til að mynda með rannsóknateymi.