Styrkir úr Sprotasjóði

RHA er umsýsluaðili sjóðsins sem er á vegum menntamálaráðuneytisins en ráðuneytið auglýsir nú eftir umsóknum um styrki úr Sprotasjóði leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Námskeið í gerð umsókna í 7. rannsóknaáætlun ESB

RHA hélt námskeið í gerð umsókna í 7. rannsóknaáætlun ESB fyrir starfsfólk Háskólans 15. mars síðastliðinn. Kennari var Dr. Sigurður Bogason hjá fyrirtækinu MarkMar sem hefur sérhæft sig í umsýslu með ESB-verkefnum. Háskólakennarar og sérfræðingar af flestum fræðasviðum sóttu námskeiðið sem var afar hagnýtt. Fengu þeir þar góða innsýn í umsóknarferlið og góð ráð um hvernig rétt er að bera sig að við umsóknir. RHA vill hvetja áhugasama til þess að heimsækja heimasíðu 7. rannsóknaáætlunarinnar hjá Rannís þar sem nánari upplýsingar eru í boði og leita fyrir sér um áhugaverð rannsóknaverkefni og mögulega samstarfsaðila til að mynda með rannsóknateymi.

Kynning á samfélagsáhrifum á Austurlandi í sjónvarpinu

í þættinum Nýsköpun - íslensk vísindi mánudaginn 21. febrúar s.l. var m.a. fjallað um rannsókn á samfélagsáhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi sem RHA vann að á árabilinu 2004-2010. Greindi Hjalti Jóhannesson, verkefnisstjóri rannsóknarinnar þar frá helstu niðustöðum hennar í viðtali við Ara Trausta Guðmundsson.

Skýrsla RHA kynnt á fjölmennum fundi um fiskveiðistjórnunarkerfið 1. febrúar

Meðal frummælenda á fundinum sem haldinn var í menningarhúsinu Hofi á Akureyri var Stefán Gunnlaugsson, lektor við Viðskiptadeild HA. Kynnti hann þar niðurstöðu skýrslu RHA Áhrif innköllunar aflaheimilda á stöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Skýsluna vann hann ásamt Jón Þorvaldi Heiðarssyni, lektor við Viðskiptadeild og sérfræðingi við RHA og Ögmundi H. Knútssyni, dósent við Viðskiptadeild. Var fundinn afar fjölmennur og umræður líflegar um málefnið eins og nærri má geta.

Services of General Interest - Nýtt verkefni á vegum ESPON sem RHA tekur þátt í

Fyrsti vinnufundur í þriggja ára verkefni á vegum ESPON áætlunarinnar var haldinn í Svíþjóð 21. - 22. janúar síðastliðinn. Að verkefninu "Indicators and Perspectives for Services of General Interest in Territorial Cohesion and Development" (SeGI) standa 11 háskólar og rannsóknastofnanir í Evrópu undir forystu Konunglega tækniháskólans í Stokkhólmi (KTH).

Rannsakað verður hlutverk margvíslegrar almennrar þjónustu og samspil við þróun byggðar á mismunandi svæðum Evrópu. Hluti af verkefninu verður "case study" á 10 svæðum og mun íslenska dæmið verða Norðurland eystra. Fyrir hönd RHA/HA munu Hjalti Jóhannesson og Ingi Rúnar Eðvarsson einkum starfa að rannsókninni.

Yfirlit yfir rannsóknasjóði

RHA hefur nú tekið saman yfirlit yfir helstu rannsóknasjóði og aðra styrkjamöguleika innanlands og erlendis á helstu fræðasviðum sem Háskólinn á Akureyri starfar á.