Aðstoðarforstöðumaður RHA í afleysingar sem sveitarstjóri

Hjalti Jóhannesson, aðstoðarforstöðumaður RHA hefur verið ráðinn tímabundið til 1. september til að sinna störfum sveitarstjóra Hörgarsveitar. Hann mun verða í leyfi frá RHA á meðan en fylgja þó eftir nokkrum verkefnum á stofnuninni fyrst um sinn.

Netávani - tveggja ára rannsóknarverkefni lokið.

 Netávani (Internet Addictive Behaviour, IAB) er skilgreindur sem hegðunarmynstur sem einkennist af ákveðnu stjórnleysi í internet notkun. Þess konar hegðun getur leitt til einangrunar og dregið úr félags- og námslegri virkni, áhuga á tómstundum og haft áhrif á heilsu.
Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) tók þátt í tveggja ára rannsóknarverkefni sem unnið var í samstarfi fræðimanna í sex löndum með stuðningi frá internetöryggisáætlun ESB.  Verkefnið hafði vinnuheitið EU NET ADB (sjá  vefsiðu) og var markmið þess að meta algengi og áþrifaþætti netávana.  
Rannsóknin tók til meira en 13.000 ungmenna á aldrinum 15-16 ára í Evrópu og  þar af voru rúmlega 2.000 á Íslandi. Meðal þess sem var til skoðunar í rannsókninni voru internetnotkun, bakgrunnsþættir (námsárangur, reglur foreldra), matskvarði fyrir netávana (Internet Addiction Test –IAT) , leikjanotkun(AICA-S), fjárhættuspil (SOG-RA) og persónulegir eiginleikar (Youth Self Report).  Að auki voru tekin viðtöl við þátttakendur sem sýndu merki um netávana til að skoða nánar þau ferli sem þar liggja að baki.   
 

Jafnlaunakönnun Akureyrarbæjar 2012

RHA gerði úttekt á launakjörum starfsfólks Akureyrarbæjar árið 2012 og var rannsókninni sérstaklega ætlað að varpa ljósi á hugsanlegan kynbundinn launamun meðal starfsmanna bæjarins.

Helstu niðurstöður eru að óútskýrður launamunur karla og kvenna var 3,9% í heildarlaunum starfsfólks í fullu starfi þegar búið var að taka tillit til menntunar, starfs, deildar, aldurs, starfaldurs og vinnutíma. Óútskýrður launamunur karla og kvenna var 1,5% í dagvinnulaunum starfsfólks uppreiknuð miðað við fulla stöðu þegar búið var að taka tillit til menntunarálags, starfs, deildar, aldurs, starfaldurs og vinnutíma, körlum í vil.

Í úttekt sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði árið 1998 á launum starfsfólks Akureyrarbæjar kom í ljós að þegar búið var að taka tillit til menntunar, starfs, deildar, aldurs, starfaldurs og vinnutíma voru heildarlaun kvenna 8% lægri en heildarlaun karla. Þessi munur var kominn niður í 2-3% árið 2007 en hefur nú hækkað lítillega aftur og er 3,9% í þessari nýju rannsókn RHA.

Hvað dagvinnulaunin varðar þá kom í ljós í úttektinni árið 2007 að þegar búið var að taka tillit til áhrifaþátta voru dagvinnulaun kvenna 1,0% hærri en dagvinnulaun karla. Nú hefur þetta snúist við og hafa konur nú 1,5% lægri dagvinnulaun en karlar að teknu tilliti til áhrifaþátta.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, segist ánægður með að þessi rannsókn hafi verið gerð og telur mikilvægt að slík vinna fari reglulega fram. „Ég gerði mér vonir um að niðurstaðan væri ekki síðri en árið 2007 og helst betri því auðvitað á kynbundinn launamunur ekki að þekkjast. Hins vegar kemur í ljós að það hefur heldur sigið á ógæfuhliðina ef svo má að orði komast þótt breytingin sé ekki mikil og kynbundinn launamunur hjá okkur sé talsvert minni en hjá öðrum miðað við kannanir. Nú er það okkar hlutverk að rýna í tölurnar og skoða hvar við getum bætt okkur.“ segir Eiríkur Björn.

Bæjarráð, samfélags- og mannréttindaráð og kjarasamninganefnd Akureyrarbæjar hafa ákveðið að stofna vinnuhóp sem hefur það hlutverk að greina ástæður þess að munur mælist á launum kynjanna og gera tillögur að úrbótum.

Ráðstefna um loftslagsbreytingar á norðurslóðum

Dagana 22. og 23. ágúst næstkomandi verður haldin í Háskólanum á Akureyri ráðstefna á vegum Rannsóknaþings Norðursins (NRF) og ESPON verkefnisins ENECON en þetta eru hvort tveggja erlend samstarfsverkefni sem RHA sinnir að verulegu leyti.

Undirþemu ráðstefnunnar varða samfélags- og efnahagsleg áhrif þessara breytinga og aðferðir til að meta þessi áhrif. Þá verður fjallað um skipulagsmál og hvernig samfélög geta best aðlagað sig þessum breytingum. Þannig ætti ráðstefnan m.a. að höfða vel til sveitarstjórnarmanna og fagfólks sem hefur umhverfis- og skipulagsmál á sínu sviði.

Frestur til að skila inn ágripum af erindum er til 28. febrúar (15. mars fyrir unga vísindamenn). Opnað verður fyrir skráningu á ráðstefnuna 5. apríl. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðum NRF og ENECON.

Opið fyrir umsóknir í Sprotasjóð

Meðal verkefna RHA er að annast umsýslu með Sprotasjóði fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Nú er búið að opna fyrir umsóknir í sjóðinn fyrir úthlutunarárið 2013-2014. Auglýsingu þess efnis, ásamt frekari upplýsingum, má finna á umsóknarvef Sprotasjóðs.

Grein: Samfélagslegt hlutverk háskóla

Út er komin greinin: Samfélagslegt hlutverk háskóla eftir Trausta Þorsteinsson, Sigðurð Kristinsson og Hjördísi Sigursteinsdóttur og birtist hún í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.

Greinin fjallar um rannsókn á því á hvern hátt starfsmenn íslenskra háskóla skilja hlutverk háskóla og samfélagslegar starfsskyldur sínar. Það er síðan mátað að fjórum ólíkum hefðum í starfsemi háskóla, þ.e. Newman, Humboldt, Tómas frá Akvínó og Napoleons hefðinni. Spurningalisti var lagður fyrir alla akademíska starfsmenn og sérfræðinga við háskóla á Íslandi. Niðurstöður benda sterklega til þess að grunngildi Humboldt háskólans séu föst í sessi innan íslensks háskólasamfélags.

Climate Change in Northern Territories - call for abstracts

Climate Change in Northern Territories - Sharing Experiences, Exploring New Methods and Assessing Socio-Economic Impacts

ESPON verkefnið ENECON og NRF (Northern Research Forum eða Rannsóknaþing Norðursins munu halda alþjóðlega ráðstefnu undir þessu heiti í Háskólanum á Akureyri 22. - 23. ágúst 2013.

Frestur til að skila inn útdráttum er 28. febrúar næstkomandi. Útdrætti má senda á netfangið nrf@unak.is

Skráning á ráðstefnuna hefst 1. April 2013.

Skattar og tekjur ríkisins í norðausturkjördæmi

Í skýrslu sem Þóroddur Bjarnason, prófessor og Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor sömdu er fjallað um samanburð á sköttum sem greiddir eru í norðausturkjördæmi og þeim tekjum ríkisins sem varið er á sama svæði skv. fjárlögum 2011. Var þetta einnig greint eftir gömlu kjördæmunum; Norðurlandi eystra og Austurlandi. Fram kom að tekjur ríkisins áætlaðar 52,5 milljarðar á árinu 2011. Tekjur frá Norðurlandi eystra voru 6 milljörðum undir meðaltali landsins en tekjur frá Austurlandi 0,5 milljörðum yfir meðaltalinu. Á Norðurlandi eystra er helst um lægri tekjuskatt, trygginga- og atvinnutryggingagjöld og fjármagnstekjuskatt að ræða. Nokkrir starfsmenn RHA unnu að gagnaöflun fyrir verkið. Hér má nálgast skýrsluna í heild og stytta útgáfu

Stórt Evrópuverkefni um netávana kynnt á Vísindavöku Rannís

Síðastliðinn föstudag, 28. september kynntu Eva Halapi og Gunnhildur Helgadóttir starfsemi RHA á Vísindavöku Rannís í Reykjavík. Lögðu þær áherslu á að kynna þar stóra Evrópurannsókn EU-NET ADB sem fjallar um netávana 15-16 ára ungmenna.

Borgvæðing á norðurslóðum

Dagana 28.-30. ágúst var haldin ráðstefna í Nuuk um borgvæðingu á norðurslóðum. Hjalti Jóhannesson, forstöðumaður RHA sat í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar og hélt þar erindi um þéttbýlisvæðingu á Íslandi í tengslum við uppbyggingu iðnaðar á Austurlandi. Athyglisverð var virk þátttaka grænlenskra stjórnmálamanna í ráðstefnunni og greinilegt að þetta málefni brennur mjög á grönnum okkar í vestri. Var þema ráðstefnunnar m.a. byggt á nýlega útkomnu riti á vegum Nordregio, Megatrends en Nordregio hafði veg og vanda að skipulagningu hennar.