Nýtt verkefni um stöðu umhverfismála

RHA hefur tekið að sér verkefni sem varðar mat á stöðu umhverfismála á svæðinu við Krossanes á Akureyri. Miðað er við að lýsa stöðu umhverfismála um það leyti sem Becromal verksmiðjan er að hefja starfsemi sína á svæðinu og á fyrstu rekstrar­árum hennar eða tímabilið 2009-2012.

Umsóknir í Sprotasjóð 2012-2013

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Sprotasjóð á vefslóðinni http://www.sprotasjodur.is/  
Hægt er að sækja um í sjóðinn frá 1.- 29. febrúar.

Forstöðumannaskipti á RHA

Hjalti Jóhannesson tekur nú um áramótin við starfi forstöðumanns RHA í fjarveru Guðrúnar Rósu Þórsteinsdóttur. Var henni veitt launalaust leyfi frá störfum á árinu 2012 og mun á þeim tíma verða búsett á Nýja Sjálandi. Embla Eir Oddsdóttir mun hins vegar taka við verkefnum Guðrúnar á vettvangi Northern Research Forum.

Megaproject planning in the Circumpolar North

RHA var ásamt rannsóknastofnuninni Ecologic í Berlín að ljúka verkefni um stórframkvæmdir (e. megaprojects) á norðurslóðum "Megaproject planning in the Circumpolar North - broadening the horizon, gaining insight, empowering local stakeholders". Gerður var samanburður á nokkrum þáttum tveggja slíkra framkvæmda. Annars vegar var um að ræða stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi sem RHA hefur rannsakað á undanförnum árum og hins vegar vinnslu á olíusöndunum í Alberta, Kanada. Verkefnið var styrkt af sjóð Norrænu ráðherranefndarinnar "Arctic Cooperation Fund". Heimasíða verkefnisins er vistuð hjá Arctic Portal á Akureyri og þar er einnig að finna lokaskýrslu verkefnisins, samantektarskýrslu á ensku um samfélagsáhrif stórframkvæmdanna á Austurlandi og fleira.

Samfélagshlutverk háskóla

Í gær var send út netkönnun til akademískra starfsmanna háskólanna og sérfræðinga við rannsóknir. Könnunin er liður í rannsókn á samfélagslegu hlutverki háskóla sem er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands en í kjölfar auglýsingar samþykkti Rannsóknarstofa um háskóla að fela Rannsókna- og þróunarmiðstöð HA og Miðstöð skóla­þróunar HA að annast rannsóknina. Myndað var rannsóknarteymi sjö manns og áhersla lögð á að bakgrunnur þátt­takenda væri sem fjölbreyttastur.

Vinna í fullum gangi við EU-NET ADB

Um þessar mundir er verið að afla samþykkis þátttakenda og foreldra til að taka þátt í viðamikilli könnun um net-ávana. Til stendur að ná til um 2.000 barna í 9. og 10. bekk grunnskólanna. Þegar er byrjað að leggja könnunina fyrir og fyrstu listar komnir í hús. Verkefnið sem kallast EU-NET ADB er fjármagnað af Evrópusambandinu, svokölluðu "Safer Internet Programme" og í því taka þátt 8 háskólar og stofnanir í 7 löndum Evrópu.

RHA tekur þátt í Vísindavöku Rannís

Vísindavaka 2011 var haldin í Háskólabíói föstudaginn 23. september s.l.

Þetta árið var RHA við með kynningu á samevrópsku verkefni sem RHA er þátttakandi í. Þar er rannsökuð netnotkun og hugsanlegur netávani 15-16 ára unglinga. RHA sér um íslenska hluta rannsóknarinnar og mun nú í haust leggja könnun fyrir 2.000 unglinga í 9. og 10. bekk nokkurra grunnskóla. Forkönnun var gerð síðastliðið vor á nokkur hundruð unglingum og voru niðurstöður úr þeirri könnun m.a. kynntar ásamt því að kynna verkefnið í heild sinni.

Rannsóknaþing Norðursins - Okkar ísháða veröld

Okkar ísháða veröld - Fyrsta alþjóðaráðstefnan sem fjallaði um Norðurslóðir og Himalayasvæðið

Dagana 3. - 6. september 2011 var haldið í samvinnu við Háskólann á Akureyri sjötta alþjóðlega Rannsóknaþing Norðursins - Northern Research Forum - NRF. Þingið var haldið að Hótel Örk í Hveragerði og bar yfirskriftina Okkar ísháða veröld - Our Ice Dependent World.

Könnun á sameiningu sveitarfélaga á Norðurlandi vestra

Út er komin skýrslan Könnun á sameiningu sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.  Skýrslan er unnin fyrir Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV).  Í skýslunni er greint frá helstu niðurstöðum viðhorfskönnunar meðal íbúa sveitarfélaganna innan SSNV ásamt íbúum Bæjarhrepps um afstöðu þeirra til hugsanlegrar sameiningar og upplifun á þjónustu sveitarfélaganna.  Skýrslan var kynnt á aðalfundi SSNV að Reykjum í Hrútafirði þann 26. ágúst sl.  Skýrsluna er hægt að nálgast hér.

Evrópsk rannsókn á netnotkun unglinga

RHA er meðal sjö þátttakenda í rannsókn sem fjármögnuð er af Evrópusambandinu og kallast Research on the intensity and prevalence of Internet addictive behaviour risk among minors in Europe  (www.eunetadb.med.uao.gr). Rannsóknin mun ná til alls 14.000 unglinga á Spáni, Grikklandi, Rúmeníu, Hollandi, Póllandi og Íslandi. Vorið 2011 framkvæmdi RHA forkönnun (pilot study) til að meta netnotkun, tölvuleikjanotkun, tilfinningar, hugsanir og hegðun 15-16 ára nemenda á Akureyri og í Reykjavík. Núna er verið að undirbúa könnun meðal 2.000 nemenda í 9. og 10. bekk haustið 2011 í skólum víðsvegar á landinu.